150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

viðbúnaður vegna kórónaveirunnar.

[13:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á því sem er okkur mörgum efst í huga þessi dægrin. Ég er sammála hv. þingmanni um að hér er um að ræða verkefni af því tagi að við stöndum auðvitað saman sem þjóð um viðbrögð. Ég tók við minnisblaði frá sóttvarnalækni og landlækni um mögulegar aðgerðir sem lúta að viðbrögðum vegna veirunnar og staðan er sú að enn hefur enginn einstaklingur greinst hér á landi en svokölluð smithæfni veirunnar er meiri milli manna en áður var talið. Ljóst er nú að veiran hefur dreifst til fleiri heimsálfa og útbreiðslan er metin hröð.

Á Íslandi hefur verið í gangi undirbúningsvinna fyrir mögulega komu veirunnar hingað til lands í samræmi við viðbragðsáætlanir og var lýst yfir óvissustigi almannavarna í gær. Samkvæmt fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum verða áætlanir stofnananna virkjaðar þannig að tryggja megi sem best órofinn rekstur ef kemur til víðtæks faraldurs. Haldnir verða daglegir stöðufundir þar sem taka þátt sóttvarnalæknir, landlæknir, ríkislögreglustjóri, yfirlæknir sýkingavarna á Landspítala og framkvæmdastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, auk starfsmanna sóttvarnasviðs og fleiri innan embættis landlæknis. Sjálf er ég í daglegum samskiptum við sóttvarnalækni, og oftar, þannig að ég fæ upplýsingar um málið.

Það sem þarf að gera og er verið að gera er að fara yfir áætlanir, sérstaklega Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala einmitt núna, og það kann að vera að grípa þurfi til sérhæfðra og sérstakra aðgerða af þessum sökum sem taka stuttan tíma og eru til skoðunar. Það verður skilningur á því að það þarf mögulega að grípa til ráðstafana sem útheimta kostnað tímabundið, bæði að því er varðar utanumhald á Landspítala en líka ráðstafanir til að tryggja bráðabirgðaúrlausnir fyrir þá (Forseti hringir.) sem liggja á Landspítala en hafa fengið færni- og heilsumat.