150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

utanspítalaþjónusta.

[14:09]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Það hefur ekki farið fram hjá okkur síðan aðventustormurinn kom og svo allir þeir atburðir sem hafa gerst núna í janúar, bæði vegna náttúruvár og meiri umferðar ferðamanna og annarra um landið, að mikið hefur mætt á viðbragðsaðilum og viðbúnaði þeirra. Því langar mig að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um það í þessu sem varðar hennar málaflokk, þ.e. svokallaða utanspítalaþjónustu. Það eru þeir viðbragðsaðilar sem eru oftast fyrstir á vettvang og veita fyrstu bjargir þegar eitthvað slíkt gerist og hafa mjög fjölbreyttu hlutverki að gegna. Landspítalinn hefur mikið verið í umræðunni en það eru þessir aðilar sem mæta fyrstir á vettvang og koma svo viðkomandi í sérhæfða aðstoð eins og á Landspítalanum. Það skiptir miklu máli að þessir aðilar séu í stakk búnir til að takast á við alla þá miklu atburði sem koma upp í dreifðum byggðum, oft langt frá höfuðborginni.

Við tókum þetta upp á síðasta þingi í hv. velferðarnefnd og Alþingi allt samþykkti þingsályktunartillögu um skipulag utanspítalaþjónustu og annað slíkt með áherslu á mikilvægi hennar. Það mikilvægi hefur heldur betur sýnt sig undanfarna daga og mánuði.

Því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig staðan sé í ráðuneytinu við að styrkja og styðja þessa mikilvægu viðbragðsaðila og þann viðbúnað sem þeir hafa aðgang að til að takast á við þessa atburði.