150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

utanspítalaþjónusta.

[14:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Bráðaþjónusta og sjúkraflutningar hafa verið eitt af mínum skilgreindu áherslumálum á síðasta og þessu ári. Á dögunum fékk ég skil frá starfshópi sem ég fól að gera tillögur að framtíðarskipulagi sjúkraflutninga á Íslandi í samræmi við heilbrigðisstefnu. Hópurinn hefur skilað niðurstöðum. Í þeim tillögum er mjög margt sem myndi bæta stöðu okkar til að bregðast við þeim tilvikum sem við erum að horfa á yfir vetrarmánuðina. Meginniðurstaða þessa hóps er að umsjón með sjúkraflutningum á landinu öllu þurfi að vera á einni hendi. Lagt er til að sett verði á fót miðstöð bráðaþjónustu og sjúkraflutninga sem hafi víðtækt hlutverk með það að markmiði að samræma þjónustuna, veita faglegan stuðning, annast þjálfun og þróun fagstétta á þessu sviði og sinna gæðaeftirliti. Þessum hópi var falið að gera tillögur sem snúa að mönnun og menntun, þjálfun og endurmenntun og fjalla um þjónustuviðmið, gæðamælikvarða, eftirlit með sjúkraflutningum o.s.frv. Eins var honum ætlað að endurskoða greiðslufyrirkomulag vegna sjúkraflutninga til samræmis við markmið þjónustunnar.

Staðan núna er mjög mismunandi eftir landshlutum og það er ekki alveg tryggt að allir landsmenn sitji við sama borð að því er varðar aðgengi að öruggri utanspítalaþjónustu.

Hv. þingmaður spyr líka um þau tilteknu tilvik sem eru nú að baki, annars vegar veðrið í desember og hins vegar snjóflóð á Flateyri. Hvað veðrið í desember varðar höfum við fyrst og fremst verið að skoða þá stöðu þegar varaafl er ekki fyrir hendi. Hvað varðar snjóflóð á Flateyri erum við miklu frekar að hugsa um viðbragðs- og bráðaliða, stöðuna á afskekktum stöðum sem ekki eru með lykilheilbrigðisþjónustu innan seilingar, stöðu bráðaþjónustu, lyfja og sjúkragagna á vettvangi, stöðu og möguleika heilsugæslunnar til að sinna bráðaþjónustu á vettvangi o.s.frv. Þetta er allt til skoðunar en mikilvægast af öllu er að núna liggja fyrir drög að heildrænni stefnu.