150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

utanspítalaþjónusta.

[14:13]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra að strax séu komnar einhvers konar niðurstöður og tillögur í þessu mikilvæga máli.

Þá langar mig að færa mig aðeins aftar í atburðina, þó kannski ekki alltaf aftar, í úrvinnsluna úr atburðunum, sálrænar afleiðingar og annað sem kemur kannski með auknum þunga inn á heilbrigðisstofnanirnar, að sinna sálgæslu og vera til staðar fyrir fólkið. Það á vissulega við um óveðrið og á Flateyri og stóra atburði í fámennum samfélögum og ekki síst í stöðu sem er núna uppi á Suðurnesjum og í Grindavík þar sem mikil óvissa er í gangi. Það leiðir vonandi ekki til neinna atburða en vissulega hafa áhyggjurnar og kvíðinn vaknað og þess vegna þurfa heilbrigðisstofnanir að vera tilbúnar til að takast á við samfélagið eftir svona atburði.