150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:16]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Persónuafsláttur frá tekjuskatti hefur verið við lýði í rúmlega 30 ár. Hann hefur reynst mjög gott tæki til að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem minnstar tekjur hafa og aukið tækifæri lágtekjufólks. Aftur á móti hafa þeir sem engar tekjur hafa ekki notið góðs af persónuafslætti enda engar tekjur til að veita afslátt af. Þrátt fyrir að það hljómi misvísandi þá er það engu að síður hægt. Slíkt má gera með því að greiða út til einstaklinga þá fjárhæð persónuafsláttar sem viðkomandi nýtir sér ekki í hverjum mánuði. Slík útgreiðsla á ónýttum persónuafslætti, öðru nafni neikvæður tekjuskattur, myndi hér á Íslandi nýtast sérstaklega ungu fólki og námsmönnum sem margir hverjir afla lítilla tekna en safna í stað þess skuldum í formi námslána.

Sífellt aukast kröfur til barna og ungmenna á Íslandi. Þar sem áður dugði að vera með stúdentspróf þarf a.m.k. eina háskólagráðu, helst tvær. Slíkt tekur auðvitað mörg ár, ár þar sem viðkomandi einstaklingur er tekjulaus eða í besta falli mjög tekjulítill. Samhliða háskólanámi hlaðast upp námslán og þrátt fyrir að fullvíst sé að námslánin þurfi að borga til baka er alls ekki á vísan að róa með örugga atvinnu að loknu námi. Allt þetta veldur streitu og vanlíðan. Ef námsmönnum væri greiddur út ónýttur persónuafsláttur á meðan á námi stæði gætu einhverjir þeirra mögulega tekið lægri námslán eða hreinlega bara látið enda ná saman. Einhverjir munu hins vegar nýta tækifærið sem svona öryggisnet veitir til að hætta að láta sig eingöngu dreyma og raungera hugmyndir sínar. Einnig mun þessi hógværa upphæð geta haft áhrif á hvenær fólk ákveður að stofna fjölskyldu og eignast börn að loknu námi því það er alveg víst að miklar skuldir þegar fólk útskrifast úr námi hljóta að hafa áhrif á ákvarðanir fólks um fjölskylduhagi og barneignir. Allt eru þetta atriði sem eru talin þjóðfélagi til tekna í nýjum velsældarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.

Útgreiddur ónýttur persónuafsláttur nýtist ekki bara námsmönnum. Atvinnulíf um allan heim er að þróast í þá átt að fólk ræður sig til einstakra verkefna frekar en í fastlaunaða vinnu. Það sem kallast „gig economy“, og við höfum kallað harkhagkerfið, veitir atvinnurekendum aukinn sveigjanleika en er ekki beint til þess fallið að auka öryggi starfsfólksins sem um ræðir. Það gerir hins vegar að verkum að upp munu koma tilvik þar sem fólk missir út tekjur í stuttan tíma og gæti þessi aðgerð hjálpað til við að brúa þau tímabil. Krafan um símenntun er einnig komin til að vera og mun eingöngu aukast á næstu misserum. Með þessari aðgerð yrði fólki gert auðveldara um vik að sækja sér hana, mennta sig og efla sig í starfi. Útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar nýtist þó ekki eingöngu innan menntakerfisins eða á atvinnumarkaði. Hluti öryrkja og þeirra sem búa við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur svo lágar tekjur að þær ná ekki upp í þá upphæð sem fullnýtir persónuafsláttinn. Neikvæður tekjuskattur mun geta breytt stöðu þeirra verst stöddu meðal þeirra verst stöddu og það eitt og sér gerir þessa hugmynd þess virði að láta á hana reyna.

Forseti. Það er þekkt að það kostar peninga að búa til peninga. Þrátt fyrir að eiga uppruna sinn í rekstri fyrirtækja nær orðatiltækið alveg jafn vel yfir hið opinbera. Það sem átt er við er að innviðir sem styrkja einstaklinga búa til betri einstaklinga sem munu skila meiru til samfélagsins til baka. Streita, áhyggjur af skuldum og sérstaklega glötuð tækifæri frumkvöðla sem aldrei náðu flugi kostar þjóðfélagið gríðarlega mikið. Þessi hugmynd er ekki ókeypis í framkvæmd. Hún kostar um 10 milljarða en greiningar sýna að ávinningurinn yrði mun meiri. En eina leiðin til að komast að því fyrir víst er að láta af henni verða og mæla árangurinn. Ef niðurstaðan verður sparnaður í heilbrigðiskerfinu, aukin aðsókn í nám og aukin nýsköpun með tilheyrandi stofnun nýrra fyrirtækja, eins og rannsóknir benda til, mun aðgerðin borga sig margfalt til baka.

Í lokin auglýsi ég hér eftir nýju heiti yfir þessa hugmynd sem þekkist nú sem neikvæður tekjuskattur, eitthvað sem er aðeins jákvæðara og fallegra. Eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti datt mér í hug að ónýttum útgreiddum persónuafslætti, annað svona ónothæft orðskrípi, væri líklega best lýst með orðinu persónuarður, sem mér finnst vera fallegt. Ég hvet þingmenn og ráðherra til að koma með hugmyndir, annars nota ég persónuarð hér með.

Forseti. Þótt orðið persónuarður sé nýtt er hugmyndin hvorki ný né frumleg. Hún er ekki einu sinni dýr en engu að síður hefur aldrei á það reynt af alvöru hvort lágmarksframfærsla muni auka velsæld fólksins í landinu. Í staðinn hefur verið reynt að plástra yfir einstaka göt gloppótts kerfis með aðgerðum sem annaðhvort ná ekki utan um vandamálið eða kosta meira í umsýslu en vandamálið sjálft. Með breyttum atvinnuháttum, snarlækkandi tryggð á vinnumarkaði og aukinni kröfu um menntun og þekkingu, gengur ekki að hið opinbera ríghaldi í gamlar kennisetningar (Forseti hringir.) og reyni að troða samfélaginu í þann ramma því að það er ekki nóg að tala fallega um framtíðina. Við þurfum að fara að búa hana til og til þess þurfum við að fjárfesta í fólki því fólkið er framtíðin.