150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna á nefndaráliti meiri hlutans. Ég er búinn að setja mig á mælendaskrá í þessu máli og hef ýmsar skoðanir á því og mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig getur hv. þingmaður rökstutt það fyrir íbúum minni sveitarfélaga að þeir hafi ekki getu til að ákveða sjálfir hvort þeir sameinist eða ekki? Þessi tillaga gengur út á að segja við íbúa minni sveitarfélaga: Þið getið ekki, hafið ekki vit á eða ráðið ekki við það að ákveða sameiningu. Hvernig ætlar þingmaður að rökstyðja það fyrir þessum íbúum?

Mig langar líka að spyrja þingmann hvort verið sé að ganga á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga með því að leggja málið fram með þessum hætti. Hvað vakir fyrir hv. þingmanni? Getur hún rökstutt það að ekki sé gengið á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga með tillögunni?