150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Eins og hv. þingmanni er væntanlega kunnugt fylgir ítarlegt minnisblað með þingsályktunartillögunni. Það hefur fylgt henni í gegnum allt samráðsferlið og til þingsins þar sem rakin eru álit fræðimanna á því hvað felist í sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Þar er það mjög vel dregið fram að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga felst í rétti íbúanna til að kjósa sér stjórnendur í því sveitarfélagi þar sem þeir búa til að vinna að þeim verkefnum sem sveitarfélögum eru falin með lögum. Þar er líka rakið vel að það sé í rauninni alltaf réttur ríkisins að skipa landinu í sveitarfélög.