150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir framsöguna. Ég mun koma betur inn á hugmynd málsins í heild í ræðu á eftir en mig langar að inna þingmanninn eftir skuldaviðmiðinu. Gert er ráð fyrir því í tillögunni að færa skuldaviðmiðið niður í 100% af tekjum fyrir A-hluta og eins og þingmanninum er kunnugt um er heildarskuldaviðmiðið í dag miðað við sveitarfélagið í heild, ef ég man rétt. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort farið hafi fram einhver greining á því hve stór hluti A-hluta sveitarsjóða er yfir því viðmiði í dag. Ég hef sjálfur eins og þingmaðurinn verið í sveitarstjórn og þekki þessa endalausu baráttu og mig langar að vita hvort þessi greining hafi komið fyrir nefndina.