150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sitt lítið af hverju sem mér liggur á hjarta sem lýtur að því sem við ræðum hér um sameiningu sveitarfélaganna. Mig langar að spyrja hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur hversu djúpt þau hafi farið í að skoða þær afleiðingar sem nú þegar hafa komið fram hjá áður sameinuðum sveitarfélögum. Það er næsta víst að það hefur gengið misvel.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga verði ekki virtur og sérstaklega litið til þess ef sveitarfélagið er sjálfbært og kærir sig alls ekkert um að fara í sameiningu við aðra. Ég er voðalega lýðræðisleg akkúrat í þessum efnum þar sem mér finnst að þeir sem málið varðar eigi sjálfir að fá að taka ákvörðun, enda hafa þeir til þess lögvarinn rétt, (Forseti hringir.) samanber stjórnarskrá. Þetta er það sem ég er að velta fyrir mér akkúrat núna.