150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið. Það kom fram fyrir nefndinni, m.a. í skýrslum og rannsóknum sem gerðar hafa verið á sameiningum, að engar tvær sameiningar eru eins. Það er mismunandi ávinningur og mismunandi hvaða þjónusta breytist eða batnar eftir því á hvaða svæði sameiningin fer fram. Það er mjög mikilvægt í allri vinnunni fram undan að íbúar á hverju svæði fái tækifæri og svigrúm til að gera sér grein fyrir því hvaða áherslur þeir vilja leggja til að ná markmiðunum um öflugri sveitarfélög sem eru sjálfbær og til þess að auka jafnræði íbúa á hverju svæði.