150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[15:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er eiginlega enn þar stödd að ég er að spá í það akkúrat núna, þegar við erum að tala um þessi mál, hvaða virðing er borin fyrir sjálfbærni og sjálfstæði sveitarfélaganna. Ég velti því fyrir mér hvort þetta beri það með sér að hvað sem sveitarfélögin segja, hvort sem þau heita Fljótsdalshreppur, Hvalfjarðarsveit, Tjörneshreppur eða hvað sem er, verði þau hreinlega skikkuð í sameiningu, hvort sem þeim líkar betur eða verr, þó að þau séu algjörlega sjálfbær. Samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar er sjálfstæði sveitarfélaga óumflýjanlegt.

Ég stend stundum með annan fótinn í Reykjavík og hinn í Kópavogi og svo með annan fótinn í Reykjavík og hinn á Seltjarnarnesi og svona ýmislegt og við sjáum hvernig Kraginn er uppbyggður þar sem við erum hér öll meira og minna í faðmlögum. Það væri athyglinnar virði að spyrja í allri þessari hagræðingarstefnu hvort einhvern tímann hafi komið til tals (Forseti hringir.) að sameina þessi stærstu sveitarfélög.