150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið og tel einmitt mikilvægt að því sé haldið til haga að fjölbreytt sjónarmið hafi komið fram frá fulltrúum bæði minni og stærri sveitarfélaga. Því fer fjarri að við höfum fengið hvort sem er umsagnir eða gesti frá öllum sveitarfélögum landsins. Að sjálfsögðu er svo hlutverk okkar sem þingmanna að vega og meta öll sjónarmiðin sem koma fram. Það er aldrei unnt að taka tillit til þeirra allra og við sitjum uppi með að taka ákvörðun um hvaða sjónarmið sé skynsamlegast til að ná þeim markmiðum sem við erum sammála um í þessu tilfelli.

Ég ítreka fyrri spurningu um hvort það sé eitthvað tiltekið í álitum sérfræðinga, lögfræðinga og fræðimanna sem hafa fjallað um hvað felist í sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga, sem þingmaðurinn er ósammála. Ég vil lesa hér upp úr greinargerðinni:

„Ákvæðið um sjálfstjórn sveitarfélaga er í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og var á sínum tíma m.a. rökstutt á þann veg að það væru mannréttindi íbúa sveitarfélags „að fá að kjósa þá sem færu með stjórn sveitarfélagsins í almennum og lýðræðislegum kosningum. Á þann hátt fengju íbúar sveitarfélagsins sjálfstjórn í eigin málum og yrðu lausir við afskipti skipaðra embættismanna konungs í sveitarstjórnarmálum“. Hugmyndin um sjálfstjórn sveitarfélaga byggist á þeirri lýðræðislegu hugsun að fólkið í landinu eigi rétt á að hafa bein áhrif á sitt nærumhverfi. Þegar rætt er um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga verður að hafa þennan rétt að leiðarljósi.“

Í minnisblaðinu kemur fram, þar sem álit fræðimanna er tekið saman, að ákvæðið sjálft hljóði á þann veg að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.