150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:25]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni minni hluta fyrir ræðu hans. Það er ánægjulegt að það sé bara eitt atriði af þessum 11 í þingsályktunartillögunni sem ágreiningur er um á milli minni og meiri hluta nefndarinnar. Það kemur svo sem ekki á óvart að það sé þetta atriði því að eins og kom fram er ekki einhugur um það á sveitarstjórnarstiginu.

Mér fannst þingmaðurinn taka svolítið djúpt í árinni þegar hann sagði að það væri verið að stjórnast og hvernig hann upplifði Samband íslenskra sveitarfélaga taka völdin. Mér fannst hann tala um að verið væri að vaða yfir ákveðin sveitarfélög. Því langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann hafi verið á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. september sl. og upplifað atkvæðagreiðsluna sem þar fór fram.

Einnig nefndi hann að mörg sveitarfélög kysu að standa utan Sambands íslenskra sveitarfélaga og mig langar að vita hvaða sveitarfélög hann á við af því að hann talar um að þau séu mörg.

Þingmaðurinn talar um að þar hafi ekki verið mikið að gerast undanfarið og að verið sé að þvinga fólk inn í sameiningarviðræður og annað slíkt. Mig langar þá að spyrja í þriðja lagi hvort þingmaðurinn hafi fylgst með þeim þreifingum sem hafa verið á sveitarstjórnarstiginu síðustu fimm árin. Ýmislegt hefur verið í gangi. Sumt hefur endað með sameiningum með atkvæðagreiðslum og öðru slíku en aðrar þreifingar ekki og ég upplifi að þingmaðurinn sé að segja að sveitarfélögin séu ekki að hugsa um þetta, að það sé verið að ýta þeim inn í það að fara að huga að sameiningum og að þau séu þvinguð í það. Mig langar því að vita hvort þingmaðurinn hefur fylgst með því sem hefur verið í vinnslu.