150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásgerði K. Gylfadóttur fyrir spurningarnar. Henni þótti ég taka djúpt í árinni hvað varðar samþykkt sambandsins frá því í september sl. og spurði hvort ég hefði verið þar. Nei, ég var ekki þar en ég hef heyrt af þessum fundi og séð frá honum fréttir. Það sem ég var að ræða í minni ræðu var sú afstaða sem birtist á vettvangi sveitarfélaga á landsþinginu að með tilliti til þess hvert hlutverk sambandsins er sé hægt að standa frammi fyrir tillögu á landsþingi um að leggja niður einhver sveitarfélög á einhverjum grunni eins og þarna er varðandi lágmarksíbúafjölda. Það er sú afstaða sem ég velti fyrir mér. Hvort ég hafi tekið djúpt í árinni veit ég ekki en ég spyr: Hvernig er þessi afstaða á þinginu þegar kemur upp tillaga um að það eigi að leggja niður sveitarfélög einhverra hópa sem þarna eru mættir og sameina þau öðrum? Þau eru augljóslega borin atkvæðum. Hversu stór hluti var þarna á móti veit ég ekki, einhverjir voru það en þessi minni hluti er borinn atkvæðum. Stærri sveitarfélögin eru auðvitað miklu fjölmennari á þinginu og eiga auðvelt með að samþykkja slíka tillögu.

Með tilliti til stjórnarskrárinnar, sveitarstjórnanna og hlutverks sambandsins spyr ég þessarar spurningar: (Forseti hringir.) Hvernig er þessi afstaða að sitja á þingi þar sem verið er að leggja til (Forseti hringir.) að sveitarfélög hluta fulltrúa sem þarna eru mættir verði sameinuð (Forseti hringir.) með lögþvingunum?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)