150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar sem ég er ekki búinn að svara öllum en ætla að leitast við að gera í seinna andsvari mínu. Hún spurði áðan t.d. hvaða sveitarfélög stæðu utan sambandsins. Ég hef það ekki á takteinum en þau eru a.m.k. einhver. Einhvers staðar sá ég það.

Vegna orða minna um að þessar sameiningar og þreifingar sveitarfélaga hafi verið baggi á þessari vinnu undanfarin ár veit ég ekki betur en að það hafi verið sameining í Suðurkjördæmi fyrir stuttu þar sem sveitarfélögin Sandgerði og Garður sameinuðust. Fleiri dæmi eru um þetta undanfarin ár. Spurt var hvort ég hefði fylgst náið með þessu og svarið er að ég hef auðvitað fylgst með þessu síðan ég kom á þing en ég er bara búinn að vera hérna í rúm tvö ár. Ég hef ekki orðið var við það sem íbúi í landinu að þetta væri eitthvert stórmál. Menn hafa fjallað um þetta og menn hafa fellt þetta og menn hafa samþykkt þetta. Þetta hefur gengið misvel en þetta hefur gengið eins og tölurnar sanna, frá 1992 hefur þeim fækkað um ríflega 120, niður í 72 eins og fjöldinn er í dag. Ég tel það ágætisárangur.

Varðandi afstöðu á landsþingi sveitarfélaga sem mér hefur orðið tíðrætt um spyr ég þeirrar einföldu spurningar hvort þetta sé eðlilegt. Hvað gerist næst? Þeir geta í krafti meiri hluta ákveðið að setja þetta viðmið við 5.000. Þeir myndu fá það samþykkt í krafti meiri hluta, myndi ég halda, í krafti þess að hafa fleiri fulltrúa á þinginu. Þeir gætu gert það. (Forseti hringir.) Er eðlilegt að vettvangur sveitarfélaga taki svona til samþykktar og leggi til við ríkisvaldið? Ég bendi á að þessa lögþvingun (Forseti hringir.) á að knýja fram á þingi með stuðningi allra flokka nema Miðflokksins.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti hv. þingmenn á tímamörk.)