150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023, eins og kemur fram í heiti tillögunnar. Eins og hv. þingmönnum er vafalítið sumum hverjum kunnugt um þá tók ég til máls við 1. umr. og mörg af þeim sjónarmiðum sem ég hef uppi í málinu komu fram þar og ég mun kannski ekki að rekja þau sérstaklega aftur. Ég hvet hv. þingmenn eindregið til að lesa þá ágætu ræðu en hún er til á vef þingsins.

Það er mikið fagnaðarefni að þessi tillaga skuli vera komin út úr vinnu nefndarinnar, þ.e. nefndin er búin að fjalla um hana og skila frá sér áliti og svona stórt séð þá skilar hún frá sér tillögunni lítið breyttri, hún leggur ekki til neinar stórkostlegar breytingar á texta tillögunnar. En það eru nokkur atriði sem mig langar að ræða af því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans og nokkrir þingmenn hafa komið inn á, bæði í ræðum og andsvörum fram að þessu. Það er fyrst sjálfbærni sveitarfélaganna. Ég lít svolítið á það þannig að sveitarfélag sem er í færum til að sinna sjálft þeim verkefnum sem það á samkvæmt lögum að sinna sé sjálfbært sveitarfélag. Jú, auðvitað geta í einhverjum tilfellum verið færi fyrir sveitarfélög að standa í byggðasamlögum eða einhverju slíku þannig að þau taki sig saman um verkefni eins og lög heimila en stórt séð þá sé ég ekki að það geti talist almennilega sjálfbær sveitarfélög sem þurfa til að mynda, eins og við höfum heyrt frásagnir af, að vera með 10–15 þjónustu samninga við önnur sveitarfélög vegna þess að þau hafi sjálf ekki burði til að sinna verkefnunum. Þau hafi peninga en ekki burði sem sveitarfélög til að sinna verkefnunum. Fyrir mér er það ekki sjálfbært sveitarfélag sem þannig er háttað um.

Það hefur aðeins verið rætt hér í dag og bent á að þrátt fyrir að núna sé ekki lögþvingun um stærð sveitarfélaga þá hafi engu að síður orðið nokkur árangur í fækkun. En við skulum muna það, hv. þingmenn, að stærsti hluti þeirrar fækkunar varð einmitt á þeim tíma sem lágmarkið 50 íbúar var þó í lögum, á árabilinu 1990–2011, ef ég man rétt, ég man það ekki nákvæmlega, hv. þingmenn geta leiðrétt mig ef þeir hafa nennu til, hvenær lögin voru sett. Stærsta hlutann af þessum tíma, frá 1990 til ársins í ár, var lágmark í gildi og það skilaði umtalsverðum árangri, vil ég meina. Þetta er mikilvægt.

Það er líka mikilvægt að fram komi lýðræðisvinkillinn á þessari sjálfbærni. Sumum þingmönnum hefur orðið tíðrætt um að það skipti voðalega miklu máli að íbúarnir fái sjálfir að segja til um eigin málefni og eigin velferð. Íbúi í 50 manna sveitarfélagi sem er með 10–15 þjónustu samninga við annað sveitarfélag hefur ekkert um það að segja hvernig þjónustu sveitarfélags hans er háttað. Það er ákveðið af íbúum stóra sveitarfélagsins sem samningurinn er við og aðkoma þeirra íbúa er nánast engin að þeirri ákvörðunartöku. Það er ekki að mínu mati, herra forseti, mjög lýðræðislegt. Það er í rauninni í andstöðu við þá lýðræðishugmynd sem við ættum að hafa í heiðri.

Þegar við komum að lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga er ég auðvitað ekki með einhverja töfratölu og ég ætla ekki að halda því fram að einhver viti nákvæmlega hvað sveitarfélag eigi að vera stórt til að það sé heppileg „rekstrareining“. Ég er sjálfur mjög fráhverfur því að líta á sveitarfélög sem rekstrareiningu, ég vil líta á þau sem samfélög, því að það er það sem sveitarfélag á að vera. Þetta snýst ekki bara um rekstur, þetta snýst um að búa til gott samfélag. Það hefur verið talað um að það sé hagkvæmt að slíkt samfélag sé einhvers staðar á bilinu 30.000–35.000 manns. En það sjá það náttúrlega allir þingmenn að ef við ætluðum að setja það upp á Íslandi værum við komin með víða á landinu alveg risastór sveitarfélög, alla vega landfræðilega séð, og orðið vandséð að hagsmunir íbúa sveitarfélaganna væru þeir sömu frá einum enda til annars og ekki einu sinni sambærilegir þannig að það myndi ekki ganga heldur.

Þá komum við að því að í tillögunni er valið að fara þetta í tveimur skrefum, 250 og svo upp í 1.000 árið 2026. Ég er ekki sannfærður um að það þurfi þetta milliskref. Ég trúi því að sveitarfélögin muni, þegar þau sjá framan í 1.000 manna markið einhvers staðar í tillögum eða lagatexta, ekki vilja taka milliskrefið. Mér er það mjög til efs að mörg sveitarfélög eða íbúar margra sveitarfélaga hefðu sérstakan hug á því að fara í tvennar íbúakosningar með stuttu millibili þar sem fyrst ætti að kjósa sig upp í 250 manns og síðan upp í 1.000. Ég hef enga trú á að það myndi verða það sem flestir íbúar myndu velja og ég held að sveitarstjórnarmenn almennt á landinu séu það skynsamir að þeir myndu ekki leggja slíkt til, vitandi það að þeir væru að tjalda til einnar nætur. Ég held að það væri ekki málið. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra, sem ég veit að er búinn að fylgjast með þessari umræðu, til að hugleiða það gaumgæfilega hvort nauðsynlegt sé þegar frumvarp um þetta verður lagt fram að hafa milliskref eins og þetta.

Mér finnst líka það hvort við eigum að miða við 1.000 íbúa eða ekki fara hreinlega eftir landafræðinni. Hvernig liggur sveitarfélagið í landi? Er t.d. skynsamlegt að vera með eitt sveitarfélag eins og staðan er í dag sem næði frá Árneshreppi á Ströndum allt suður í Búðardal? Ég veit það ekki. En ef við ætlum að komast upp í 1.000 þurfum við að fara einhverja slíka leið, a.m.k. í Reykhólasveitina. Kannski er það óþarfi. Kannski er alveg nóg að halda sig bara við gömlu Strandasýsluna eða því sem næst. Það eru þessi sjónarmið sem mér finnst að megi hugsa svolítið um. En ég kom inn á það í fyrri ræðu að ég er sammála því að við erum hreinlega komin þar í nútímasamfélagi að pínupínulítil sveitarfélög eru ekki sjálfbær. Þau hafa ekki þá lýðræðislegu þátttöku sem þarf til að íbúunum geti liðið þannig að þeir hafi eitthvert ákvörðunarvald um hvaða þjónustu þeir fá. Það er bara ekki þannig.

Mig langar næst, herra forseti, að tala um tekjustofnana. Ég hef nýverið flutt hér á þingi, ekki í fyrsta sinn, tillögu um að fela sveitarstjórnarráðherra að skoða möguleika sveitarfélaganna til að taka umhverfisgjöld, sem sagt endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga með tilliti til þess. Ég tel að það séu mörg tækifæri fyrir sveitarfélögin til að styrkja sig og styrkja tekjustofnana. Mér finnst sú umræða litast kannski svolítið af stærð sveitarfélaganna. Minni sveitarfélögin eru háðari jöfnunarsjóðnum en hin stærri og mér finnst þessi umræða litast einhvern veginn af umræðunni um jöfnunarsjóðinn. Auðvitað á það ekki að vera þannig. Jú, sveitarfélagið á að innheimta sína skatta og gjöld og hafa þá tekjustofna en umræðan á að vera miklu víðari en bara að hún snúi að jöfnunarsjóði. Ég tel að auk umhverfisgjalda séu margir aðrir möguleikar sem sveitarfélögin gætu farið í og við ættum að skoða að hleypa sveitarfélögunum inn í þá gjaldtöku. Gistináttagjaldið til að mynda, sem við höfum nokkrum sinnum rætt í þessum þingsal, er einn af þeim þáttum og við eigum að skoða það vegna þess að það er náttúrlega ein leið fyrir sveitarfélögin til að verða sjálfbær og ég held að það sé mikilvægt.

Næst um skuldaviðmiðið. Þar er ég með vangaveltur líka. Í tillögunni er lagt til að skuldaviðmiðið sé 100% af A-hluta. Í dag erum við með 150% þegar A- og B-hluti eru lagðir saman. Ég þekki þá umræðu sem þarna er að baki mjög vel, hafandi verið í sveitarstjórn og verið í sveitarstjórn sem var langt yfir skuldaviðmiði þegar verst lét en þar sem gekk jafnframt ljómandi vel að ná þessu viðmiði niður, sem er náttúrlega mikið fagnaðarefni. Ég held að við ættum áfram að halda okkur við sameiginlegt skuldaviðmið A- og B-hluta frekar en að skipta því í sundur. Eins og ég kom inn á í andsvari við hv. framsögumann málsins áðan held ég að það sé óþarfi að búa til einhverja svona teygni í viðmiðinu með því að splitta því eða skipta með þessum hætti. Það þarf að vera einhvers konar sveigja. Sú sveigja þarf að taka tillit til aðstæðna sem geta til að mynda skapast ef það verða einhvers konar áföll, ef það verður áfall eins og hrunið, guð forði okkur frá því. Það er ekki útilokað að svoleiðis geti gerst einhvern tímann aftur, vonandi inn í einhverri mjög fjarlægri framtíð. En engu að síður fóru mjög mörg sveitarfélög í hruninu töluvert yfir það viðmið sem við erum með í dag. Nokkur sveitarfélög þurftu jafnvel að sætta sig við það að þurfa að vera undir sérstöku eftirliti og nokkur sveitarfélög þurftu að afla sér heimildar til þess að fara yfir hámarkið í útsvari til að bregðast við. Það segir manni að það þarf að vera svigrúm innan lagarammans til að mæta slíku. Sú leið sem maður kannski sér helst væri að skoða hreinlega hvort svigrúmið ætti að vera innan einhvers tiltekins tímabils, ekki svo þröngt eins og í dag, í dag er það bara eitt ár. Það væri kannski innan tímabils eins og t.d. þriggja ára og væri sveitarfélagið undir skuldaviðmiði gæti það brugðist við aðstæðum. Segjum að meðalstórt sveitarfélag þyrfti að byggja grunnskóla og sú fjárfesting myndi fyrirsjáanlega ýta því tímabundið yfir 100% viðmiðið. Það sveitarfélag gæti farið í þá fjármögnun án þess að vera að brjóta einhverjar reglur, án þess, líkt og hv. flutningsmaður benti á áðan, að fara út í eitthvert bix eins og það að taka skólahúsnæði út fyrir sviga og fela það einhverjum einkaaðilum vegna þess að annars verði það yfir skuldaviðmiði. Það hjálpar ekki neitt heldur. Sveigjanleiki þarna gæti líklega hjálpað þó að ég sé algerlega á því að það eigi að vera viðmið. Sveigjanleikinn má ekki vera svo mikill að menn geti skuldsett sveitarfélögin upp í rjáfur og látið síðan eins og það komi þeim lítið eða ekki við. Það má ekki vera þannig.

Að lokum, herra forseti, langar mig aðeins að koma inn á starfsaðstæður bæjarfulltrúa eða kjörinna fulltrúa sem mér finnst kannski ekki vera mikið komið inn á í nefndaráliti hv. meiri hluta. Nú kann að vera að það sé bara vegna þess að þau eru algjörlega sammála því sem kemur fram í tillögunni og hafa ekki talið ástæðu til að rekja það eitthvað frekar. Þetta er markmið 8, fyrir þá sem kunna að vera að hlusta og fletta upp, í því sem kallað er aðgerðaáætlun. Þetta er dálítið mikið mál vegna þess að þetta snýr líka að lýðræðinu. Þetta snýr að því hvort fólk sé viljugt til að taka þátt í þessu lýðræðislega starfi sem það að starfa sem sveitarstjórnarfulltrúi er. Við vitum það að alla vega í síðustu tvennum kosningum hefur orðið gríðarleg endurnýjun á sveitarstjórnarstiginu, sérstaklega í stóru sveitarfélögunum, a.m.k. í stóru sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Það segir manni að það er eitthvað sem virkar ekki alveg í þeim aðstæðum sem þessum fulltrúum er boðið upp á. Meira að segja í sveitarfélagi eins og Kópavogi gerðist það við kosningarnar 2014 að eftir þær kosningar voru aðeins tveir af 11 fulltrúum í sveitarstjórn sem höfðu setið þar áður. Það hittist svo heppilega á að annar var í meiri hluta og hinn í minni hluta en það er samt sérstakt að það skuli vera svona hröð endurnýjun í svona stórum sveitarfélögum. Við þurfum að skoða hvað það er í aðstæðunum sem þarna er stýribreytan. Auðvitað kunna það að vera alls konar þættir eins og áreitið af því að vera kjörinn fulltrúi á tímum samfélagsmiðla. Það kann vel að vera að það skipti einhverju máli. Það kann vel að vera að fólk skynji einhvern veginn sveitarfélögin ekki nægilega vel sem gerendur í nærsamfélagi sínu. Ef það er ástæðan fyrir þessu þurfum við að breyta því. Þá þurfum við að fá fólk til að trúa því að sveitarfélagið þeirra sé raunverulegur gerandi í því sem snýr að þeim, að það skipti máli með tilliti til þátta eins og skóla og leikskóla og félagsþjónustu og allra þeirra þátta sem sveitarfélögin sjá um. Að það geti raunverulega haft áhrif á þá þætti með því að taka þátt og með því að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa. Það er mikilvægt að allt þetta sé skoðað.

Ég held að mér sé alveg óhætt að lýsa því yfir að ég mun við atkvæðagreiðsluna styðja þessa tillögu. Ég held að hún sé góð. En ég bendi á, eins og ég hef sagt í ræðu minni, að ráðherra mun eiga nokkurt verkefni fyrir höndum við að smíða upp úr þessum tillögum breytingartillögur um lög um sveitarstjórnir. Ég hlakka til þegar þær tillögur koma til þingsins og vona að hv. þingmenn séu með mér í því liði að fylgja þessu máli til enda þannig að við stuðlum að því að sveitarfélögin geti orðið það styrka og mikilvæga stjórnsýslustig sem a.m.k. ég vil að þau séu.