150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það var svo sem ekki sérstök spurning í þessu en það eru oft skemmtilegustu andsvörin þar sem gefin eru færi á vangaveltum fremur en einhverjum hraðaspurningum sem stundum koma.

Þingmaðurinn nefndi byggðasamlögin sérstaklega. Ég er reyndar einn þeirra sem hef stundum gagnrýnt það að lýðræðisvettvangurinn þar, lýðræðislegt umboð byggðasamlaganna, væri ekki nægilega sterkur, að lýðræðislega tengingin væri ekki nægjanlega sterk. Ég get að því leyti tekið undir með þingmanninum. En það er þó þannig innan byggðasamlaganna að þeim er stjórnað af kjörnum fulltrúum úr sínum sveitarfélögum sem er strax skömminni skárra en einhverjir þjónustusamningar. Þjónustunni sem er á bak við samningana er aldrei stjórnað af íbúum viðkomandi sveitarfélags heldur eru það íbúar stóra sveitarfélagsins sem ákveða hvernig þjónustan er. Það eru kjörnir fulltrúar í stóru sveitarfélögunum sem ákveða hvaða þjónusta er í boði. Þess vegna er svolítið mikill lýðræðishalli þarna.

Þingmaðurinn nefndi stærðina á Hveragerði, 2.700 manns. Jú, í íslensku samhengi er það meðalstórt sveitarfélag. Það má alveg velta því fyrir sér hvort við ættum að fara enn hærra en upp í 1.000 í þessu skrefi. Ég held hins vegar að í því andrúmslofti sem nú er innan sveitarfélaganna sé þetta skynsamlegt fyrsta skref. En ég er sammála þingmanninum um að það kann að vera að það komi að því að stíga stærri skref.