150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Nirði Sigurðssyni andsvarið. 8.000 markið var inni í lögum sem varða málefni fatlaðs fólks en þau voru samt með undantekningum. Við veittum undantekningar frá því. Vestfirðir fengu t.d. að vera eitt þjónustusvæði þó að það væri aðeins undir 8.000 viðmiðinu og það voru landfræðileg sjónarmið, kannski meira en nokkuð annað, sem þar voru undir. Þetta kemur kannski aðeins inn á það sem ég var að tala um í ræðu minni, þ.e. að við þurfum kannski aðeins að horfa til þess að það kann að vera ankannalegt að teygja og toga mörk sveitarfélaga yfir mörg kjördæmi eða mörg gömul kjördæmi eftir því hvernig við lítum á það. En hitt er ljóst að með þessari stækkun upp í 1.000 erum við til að mynda ekki að stíga þau skref sem ég tel að væru skynsamleg í að fjölga verkefnum sveitarfélaga. 1.000 manna sveitarfélag mun sennilega að einhverju leyti geta ráðið við þau verkefni sem við erum með í dag en það myndi tæplega ráða við verkefni eins og framhaldsskólann, ef við tökum eitt af þeim verkefnum sem við höfum verið að tala um í opinberri umræðu, hvað þá enn flóknari verkefni eins og einhverja hluta heilbrigðisþjónustu og þess háttar. Það er ekki að fara að gerast í svona litlum einingum en það gæti hins vegar gert það ef við leyfðum okkur að hugsa eins og hv. þingmaður að kannski ættum við að ganga enn lengra. Ég ítreka: Við erum ekki komin þangað núna en við verðum þar áreiðanlega einhvern tímann.