150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:18]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Við erum að fjalla um þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Hér hafa verið flutt nefndarálit meiri hluta og minni hluta við þingsályktunartillöguna og ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju minni með meirihlutaálitið. Það er næstum samhljóma tillögunni eins og hún var lögð fram af ráðherra og unnin af góðum hópi víða að og þá aðallega frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. september sl. sem hefur komið til tals í þessum ræðustóli í dag var mælt með því að tillagan yrði lögð fram á þennan hátt og að Alþingi samþykkti hana. Ég vil segja að ég er ánægð með það hversu litlar breytingar hafa verið gerðar, a.m.k. frá því að sveitarstjórnarmennirnir sem tóku þátt á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykktu framlagða tillögu með mjög miklum meiri hluta.

Eðlilega eru ekki allir alltaf sammála, en á bls. 4 í meirihlutaálitinu finnst mér vera komið til móts við þau sveitarfélög sem mótmæla þar sem fjallað er um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Það er óþarfi að eyða miklum tíma í að fara mjög nákvæmlega í það mál en þarna er talað um að veita hæfilegt svigrúm til þess að uppfylla skilyrðin sem fram eru sett og að við mótun ákvæðisins um lágmarksíbúafjölda og eftirfylgni verði horft til landfræðilegra og félagslegra aðstæðna sveitarfélaga um hvort ástæða sé til að veita undanþágur frá meginreglunum. Þarna er smáglufa, hvernig svo sem hún kemur til með að verða nýtt verði það að lögum sem lagt er til í þingsályktunartillögunni.

Ég er líka mjög ánægð með að það er aðeins eitt atriði sem stendur út af í nefndaráliti minni hlutans og það er þetta með lágmarksíbúatöluna. Um annað virðist vera almenn sátt og það er vel.

Það verður áhugavert að fylgjast með þeirri tilraun sem er í vinnslu í nýju sveitarfélagi á Austurlandi þar sem verið er að sameina sveitarfélög sem eru á mjög víðu landfræðilegu rófi. Þar er verið að fara í ákveðna nýsköpun í stjórnsýslu sem verður mjög spennandi að fylgjast með hvernig muni ganga. Það verða örugglega viðræður og annað í framhaldinu og mun örugglega koma til þess að gerðar verða aðrar tilraunir í nýsköpun við stjórnsýslu. Ég held að það sé gott því að við þurfum að hugsa út fyrir boxið og muna að við erum að vinna að sameiningu stjórnsýslu en ekki samfélaga. Við vitum að við leggjum þessa bæi ekki saman. Þetta er hvert sitt samfélagið og að sjálfsögðu hlýtur það að vera metnaður íbúa að halda séreinkennum sínum og vinna samfélagi sínu áfram til heilla þó að stjórnsýslan sé sameinuð. Í könnun sem var gerð á síðasta kjörtímabili sveitarstjórnar þar kom fram í svörum við spurningum til íbúa að ekki skipti öllu máli hver veitti þjónustuna heldur aðallega að fólk fengi hana. Það er líka umfjöllunarefni hér að ekki verður endilega sparnaður með sameiningu sveitarfélaga, með stærri sveitarfélögum, heldur að það verði hagræðing og sterkari stjórnsýsla.

Mig langar að hnykkja á því varðandi tekjustofnana að á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. september var lögð mikil áhersla á að ríkissjóður veitti sérstakt fjárframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að fjármagna stuðning við sameiningu þeirra. Það er verið að tala um að taka frá 1 milljarð á ári næstu 15 ár og að það sé að mati sveitarfélaganna ekki ásættanlegt að tekið sé af þeim peningum sem fara nú þegar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ósk er um að sérfjármagn verði sett inn í jöfnunarsjóðinn til að styðja við þetta mál enda muni Alþingi, ef fram heldur sem horfir, breyta lögum um sveitarfélög og þar af leiðandi breytist umgjörðin. Þá væri rétt að Alþingi fjármagnaði þennan stuðning en ekki að það yrði tekið af jöfnunarframlögum sem annars eru nýtt til sveitarfélaganna.

Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni er markmið sem hefur oft verið skráð. Það er fallegt á blaði en við þurfum að vinna að því af auknum krafti þannig að störfin skili sér örugglega út á landsbyggðina, ekki að aðeins eitt og eitt starf flytjist sem byggir á því að starfsmaðurinn sé hæfur til að sinna starfinu á þeim tíma en starfið sé svo auglýst án staðsetningar ef viðkomandi starfsmaður hverfur til annarra starfa og starfið geti þannig hoppað á milli landshluta. Það er ekki mikil festa í því og ekki góð hugmyndafræði. Það þarf að tryggja að störfin flytjist og verði kyrr á landsbyggðinni.

Hér hefur verið komið inn á starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson fór yfir áðan, þar er ýmislegt sem þarf að bæta. Það er allt of mikil endurnýjun á sveitarstjórnarstiginu. Það er ekki ásættanlegt að meira en helmingur sveitarstjórnarfulltrúa endurnýist í hverjum kosningum. Það þarf meiri stöðugleika. Þar þurfum við að bregðast við. Sveitarfélögin eru orðin stærri og verkefnin breytast. Dreifum þessu meira þannig að sveitarstjórnarfulltrúarnir fái fjölbreyttari verkefni sem eru meiri að umfangi, það gæti verið gott. Einnig hefur verið talað um launasetningu sveitarstjórnarfulltrúa, að þeir þurfi að fara frá sveitarstjórninni sjálfri og til einhvers annars. Það hefur verið talað um sveitarstjórnarráðuneytið og líka Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta eru allt útfærsluatriði sem þarf að skoða og er mikilvægt að verði gert.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég ítreka að það er gott að hér hefur verið hlustað á sveitarstjórnarfólk. 20 umsagnir bárust nefndinni um málið og í a.m.k. tveimur þeirra er talað um að fara strax í 1.000 íbúa mörkin, að taka breytinguna ekki í tveimur skrefum. Sum sveitarfélög fagna, það eru líka sveitarfélög sem gera athugasemdir en meiri hlutinn er sáttur við þessar tillögur þannig að ég tel að hér hafi verið hlustað.