150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:27]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég fagna því að þessi áætlun er sett hér fram og á að verða hluti af heildstæðri og samþættri stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum og byggðamálum. Í áætluninni er m.a. talað um sjálfbærni, meira lýðræði og að tryggt verði aðgengi íbúa að þjónustunni. Það sem mig langar helst að tala um hér er það sem kemur fram í áætluninni um að lágmarksíbúafjöldi í hverju sveitarfélagi fyrir sig eigi að verða 1.000 í stað 250. Ein leið til að gera þetta er vissulega að sveitarfélög geri staði sína meira aðlaðandi fyrir ungt fólk og kannski finna þau töfralausnina í því að fólk fari að fjölga sér aftur. Það er þó vissulega óskhyggja og ég get ekki séð af áætluninni að það eigi að taka sérstaklega á því að efla t.d. heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, tryggja aðgengi að mæðravernd í heimabyggð, aðgengi að leikskólum og grunnskólum eða tryggja öryggi einstaklinga sem búa í smærri sveitarfélögum.

Ég tel að sú tilraun að sameina sveitarfélög með það fyrir augum að auka þjónustu hafi nú þegar verið framkvæmd og hafi ekki gagnast öllum sveitarfélögum. Einnig tel ég að hugsunin sem liggur að baki því að sameina sveitarfélög á þennan hátt muni ekki skila þeim markmiðum sem fram koma í áætluninni. Í frétt á vefsíðu RÚV þann 10. október 2019 sagði hæstv. ráðherra Sigurður Ingi að þessi umrædda áætlun, með leyfi forseta, byggði „á því að efla sjálfbærni sveitarfélaganna til þess að geta veitt íbúunum sem jafnasta þjónustu“. Auk þess segir sagði hæstv. ráðherra Sigurður Ingi í þessari sömu frétt, með leyfi forseta, að verið væri „að skapa tækifæri fyrir sveitarfélögin til þess að móta það samfélag sem þau vilja skapa. „Einn þáttur í því getur verið að sameina sveitarfélög.““ Auk þess kom þar einnig fram, með leyfi forseta, að hér sé „bara tækifæri til þess að sveitarfélögin taki við boltanum“.

En hvernig verða samfélög til? Er það merki um gott samfélag ef það þarf að keyra í 45 mínútur innan sveitarfélagsins til að nálgast grunnþjónustu sem er ekki boðið upp á í manns eigin íbúakjarna? Er það merki um gott samfélag þegar stofnanir og fyrirtæki leggja upp laupana í minni íbúakjörnum af því að það er hagstæðara að hafa bara eitt útibú þar sem fleiri búa?

Sameining sveitarfélaganna er ekki alltaf góð og það að skuldbinda sveitarfélög til að segja að þar þurfi að búa 1.000 íbúar finnst mér einfaldlega ekki ganga upp.

Og hvað þýðir það að taka við boltanum? Það segir sig sjálft, vona ég, að því stærri sem sveitarfélög verða af íbúafjölda færist valdið í auknum mæli frá fólkinu því að þótt íbúafjöldi aukist breytir það því ekki að fjarlægðir á milli kjarna og minni sveitarfélaga eru torveldar. Það eru aðrar ástæður fyrir því að fólki hefur fækkað á landsbyggðinni en að það telji sig skorta sjálfbærnimarkmið og lýðræði. Síðustu ár hafa fjöldamörg verkefni verði færð af hendi ríkisins yfir á sveitarfélögin eða lög eru sett á Alþingi sem lögbinda sveitarfélög til að sinna tiltekinni þjónustu. Það sem hefur búið því að baki er að sveitarfélög eigi að hafa sjálfstjórn yfir verkefnum sínum. Þetta hljómar vissulega vel en eins og hefur margítrekað komið fram fylgir aldrei nægilegt fjármagn þessum verkefnum. Það getur t.d. verið ein ástæðan fyrir því að fólk kýs að flytja frá heimahögum sínum. Í nærumhverfinu er einfaldlega ekki nægileg þjónusta til staðar.

Þær stofnanir sem sinna eiga grunnþjónustu eru fjársveltar nú þegar. Fólk getur ekki sótt sér heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og ég get ekki séð að það breytist þó að tveir bæir sem tekur 45 mínútur að keyra á milli sameinist, ég tala nú ekki um þar sem samgönguöryggi á landsbyggðinni er á mörgum stöðum til skammar. Þó sést líka að sveitarfélögum er mismunað eftir því hver er við völd hverju sinni. Sveitarfélögin virðast því þurfa að halda áfram að berjast um þá brauðmola sem falla af borði ríkisins.

Í aðgerðaáætluninni kemur einnig m.a. fram, með leyfi forseta:

„Tryggja beri fjárhagslega og rekstrarlega getu einstakra sveitarfélaga til að standa til lengri tíma undir lögbundinni þjónustu við íbúana, innviðauppbyggingu og öðrum brýnum viðfangsefnum nærsamfélagsins.“

Á þá ekki frekar að einbeita sér einmitt að því í staðinn fyrir að koma enn einu verkefni yfir á sveitarfélögin sem skerðir sjálfstæði þeirra? Þó að það líti vel út á pappír mun það aldrei ganga upp ef ráðafólk þjóðarinnar áttar sig ekki á að það vantar fjármagn og íbúa vantar öryggi hvað varðar samgöngur, atvinnu og heilbrigðisþjónustu.

Í aðgerðaáætluninni kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Gæta verði að sjálfstjórn sveitarfélaga og rétti þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, svo sem verkefnum og fjárhag.“

Ég get ekki séð að sú tillaga um að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi eigi að vera 1.000 manns tryggi sjálfstjórn eða að fólkið, einstaklingarnir sem gefa fulltrúum sitt vald til að stýra málum sínum, hafi meira að segja um hvað gerist í heimabyggð.

Ég minni einnig á það sem segir í stjórnarskránni okkar, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.“

Hvernig samræmist það sem kemur hér fram sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga? Væri ekki nær lagi að auka sjálfræði sveitarfélaga á þann hátt að þau geti sjálf tekið ákvörðun um það hvort þau sameinist öðrum sveitarfélögum? Hvernig verður svo næsta aðgerðaáætlun? Á þá fjöldi íbúa í sveitarfélagi að verða 2.000?

Mér þykir að með þessari áætlun sé verið að fara út á hálar brautir og ganga inn á sjálfstjórn sveitarfélaga með óafturkræfum og ófyrirsjáanlegum hætti. Ég tel að þarna sé verið að gera mistök og beinlínis verið að brjóta á sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og einungis verið að segja í orði en ekki á borði að þetta muni gagnast sveitarfélögunum vel þar sem liggur í augum uppi að þetta mun kannski — ég legg áherslu á kannski — gagnast litlum hluta sveitarfélaga sem búa það vel að vera samliggjandi landfræðilega nú þegar og að samanlagður íbúafjöldi þeirra nái upp í 1.000 íbúa.

Þess utan finnst mér vanta svör um hvernig eigi að tryggja öruggar samgöngur í sveitarfélögum eftir að þau verða sameinuð, til að mynda á Vestfjörðum þar sem nú þegar er töluverður akstur á milli bæjarhluta og ekki hefur verið tryggt nægt fjármagn til að viðhalda vegum eða fá mokað á veturna. Einnig væri fínt að fá upplýsingar um hvernig breytingin eigi að tryggja sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga þegar ríkið er hreint og beint að segja þeim að gera hluti sem fara beinlínis gegn sjálfsákvörðunarrétti þeirra. Einnig langar mig að spyrja hvort ekki væri betra að nýta peninga og tíma í að efla grunnþjónustu á landsbyggðinni svo við getum séð fram á að íbúum muni fjölga með eðlilegum hætti og að unnt verði að stuðla að uppbyggingu í minni sveitarfélögum með því að valdefla einstaklingana enn frekar og veita minni samfélögum aukið ákvörðunarvald um hvað gerist í þeirra nærsamfélagi í stað þess að færa valdið enn fjær einstaklingnum.