150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland ræðuna. Mér heyrist að hún sé ósammála því markmiði sem lagt er til í þingsályktunartillögunni, að stefna að því að sveitarfélögin í landinu verði um 1.000 íbúa markið til framtíðar litið, eftir sex til átta ár yrðum við komin þangað. Er það réttur skilningur að þingmaðurinn sé ósammála því markmiði? Síðan áttaði ég mig ekki á samhenginu eða tengingunni við rekstur grunnskóla. Nú erum við með fjölda sveitarfélaga þar sem eru reknir fleiri en einn grunnskóli, sveitarfélög sem áður voru kannski sex, sjö sveitarfélög sem nú er orðið að einu og þar eru reknir áfram sex til sjö grunnskólar. Mig langaði að fá frekari útskýringu á því hvert þingmaðurinn er að fara með umræðunni um grunnskólann. Það sama á við um leikskóla í þessum sveitarfélögum. Við höfum sveitarfélög þar sem íbúar eru ekki endilega fleiri þúsund en þar eru samt reknir margir leikskólar.

Síðan langaði mig aðeins að koma að stjórnarskrárákvæðinu sem oft er vísað til og samkvæmt minnisblaði sem fylgir tillögunni er farið ítarlega yfir það hvað í því felst að mati fræðimanna. Þar kemur fram að ákvæðið tryggi tilvist sveitarfélaga og að þau skuli vera þáttur í stjórnkerfi ríkisins og þar með megi ekki leggja niður sveitarstjórnarstigið. Sveitarfélögin þurfi að vera a.m.k. eitt eða fleiri, sveitarfélagið ráði málefnum sínum og sveitarfélögin séu bundin af lögum Alþingis. Túlkar þingmaðurinn þetta á einhvern annan veg?