150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nei, hún skilur greinilega ekki það sem ég var að segja. Ég var aldrei að segja að ég væri ósammála einni eða neinni sameiningu eða einum eða neinum markmiðum. Það eina sem ég legg áherslu á og hef gert algerlega frá því að ég opnaði munninn hvað þetta varðar er að allur vafi sé í fanginu á íbúum sveitarfélagsins sjálfs en ekki hér. Það eru íbúarnir sjálfir sem eiga að ráða því hvort það verður ráðist í sameiningu sveitarfélagsins eða ekki. Ég er bara algerlega á móti því að þvinga í gegn sameiningu að einu eða neinu leyti. Þegar ég talaði um kennslu þá er nú lítið sveitarfélag, hvort það var í Tjörneshreppi, ég man ekki hvar það var, þar sem voru eftir það fá börn að þau höfðu ekki kennslu lengur og foreldrarnir töluðu um það í fréttum að þau sæju ekki fram á annað en þau yrðu að fara burt því að þau höfðu ekki kennslu fyrir börnin sín lengur. Það er þetta sem ég var að tala um. Ég skal reyna að finna það á eftir hvað sveitarfélagið heitir. Ég er líka búin að lesa umsagnirnar … [Samtal í þingsal.] Grímsey? Ég er líka búin að lesa umsagnirnar — það er athyglivert að þið skulið spjalla svona vel saman undir þessu svari. Auðvitað lítið vit í því að hlusta á það. En hvað lýtur að stjórnarskránni þá spyr ég hv. þingmann til baka: Er hv. þingmaður að meina það að sveitarfélögin í landinu, sveitarstjórnir í landinu, njóti ekki sjálfstæðis samkvæmt stjórnarskránni? Ertu að segja það? Ef svo er að niðurstaða þín sé að þau njóti ekki þess sjálfstæðis sem ég tel stjórnarskrána veita þeim, ertu þá að segja, af því að þau njóti ekki þess sjálfstæðis, að við hér eigum að þröngva þeim í sameiningu á næstu sex til átta árum, hvort sem þeim líkar betur eða verr?