150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland svarið. Það er þá alveg skýrt að þingmaðurinn er sammála markmiðinu en ósammála því að sveitarfélögunum verði gert að sameinast eins og tillagan gerir ráð fyrir, nái þau ekki tilteknum íbúafjölda. Varðandi skóla og rekstur skóla þekki ég vissulega dæmi þess að kennslu hafi verið hætt í tilteknum sveitarfélögum en það hefur þá oft, ég þori ekki að fullyrða að það hafi alltaf verið þannig, verið á einhvern hátt samkomulag við foreldra þegar félagslega aðstaðan er orðin sú að foreldrar og nemendur jafnvel telja betra að komast inn í skólasamfélag einhvers staðar annars staðar. En auðvitað er það alltaf afleit staða. Að mínu áliti hefur það ekkert með sameiningu sveitarfélaga að gera. Það eru aðrar ástæður, því miður, sem liggja þar að baki.

Varðandi sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaganna var ég eingöngu að spyrja út í lagalega túlkun á því. Ég er ekki lögfræðingur en hef stuðst við minnisblað sem byggir á sérfræðiálitum og fræðigreinum helstu sérfræðinga á þessu sviði og fylgdi tillögunni. Þar kemur skýrt fram að sveitarfélögin skuli ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða og samandregin niðurstaða frá fræðimönnunum er að þeir telja vald löggjafans til að skipa málefnum sveitarfélaga annaðhvort vera mjög rúmt eða segja í rauninni jafnvel með skýrum hætti að löggjafarvaldið hafi heimild til að kveða á um skipan landsins í sveitarfélög. Það er ekki það sem er verið að leggja til í þessari tillögu. Það er verið að leggja til að sveitarfélögin finni út hvaða leiðir eru heppilegastar í sameiningum til að ná því markmiði sem þarna er stefnt að.