150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[17:54]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Margt er jákvætt að finna í tillögunni, ekki síst er snýr að útfærslum er lúta að því að styrkja lýðræðislega aðkomu íbúa í víðlendum sveitarfélögum að ákvarðanatöku, sömuleiðis á starfsskilyrðum kjörinna fulltrúa og þá er hægt að taka undir markmið um styrkingu innviða, tekjustofna sveitarfélaga og aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga á margvíslegum sviðum. Víða er nokkuð augljóst að ef vel er á málum haldið getur frekari sameining sveitarfélaga styrkt þau, bætt þjónustu við íbúa og gefið sveitarfélögunum aukinn slagkraft. Á sumum svæðum er þetta hins vegar ekki jafn augljóst, svo sem vegna landfræðilegrar staðsetningar eða samsetningar byggðar. Áhersla er lögð á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga í tillögunni og á honum er hnykkt í nefndarálitum sem málinu fylgja. Umdeilt ákvæði tillögunnar um lögþvingaðar sameiningar fámennari sveitarfélaga sem eiga að gerast nokkuð bratt er þó vart til þess fallið að skjóta styrkari stoðum undir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga.

Að því sögðu vil ég ræða málið í stærra samhengi. Það er ekki sjálfgefið að sveitarfélög verði sterkari við sameiningu eða að það efli viðkomandi byggðarlög. Það er líka hætta á að stjórnvöld hlaupist frá ábyrgð á viðhaldi og uppbyggingu innviða byggðarlaga á landsbyggðinni sem standa höllum fæti. Lögþvingaðar sameiningar geta orðið leið til að skilja enn frekar eftir erfið verkefni hjá stærri sveitarfélögunum.

Víða um land hefur ríkið verið að skera niður stoðþjónustu og grunninnviði sem eru forsenda góðra búsetuskilyrða. Safn- og tengivegir liggja undir skemmdum víða um land vegna vanrækslu samgönguyfirvalda og stjórnvalda, hvað þá að gengið sé í að gera það af alvöru að byggja þá upp. Góðar samgöngur og fjarskipti eru algjör forsenda þess að greiða fyrir vel heppnuðum sameiningum sveitarfélaga þar sem tengja þarf saman byggðir og tryggja jafnræði í aðgengi að stjórnsýslu, ákvarðanatöku og þjónustu. Eftirleikur óveðurs sem gekk yfir norðanvert landið berstrípaði svo eftir var tekið hve illa leikið svæðið er af stjórnvöldum, stofnunum þess og fyrirtækjum hvað varðar innviði og viðbúnað, hversu mikið skortir á öryggi á svo mörgum sviðum.

Hér þarf því allt að haldast í hendur hvað varðar innviðauppbyggingu, ekki síst bættar samgöngur samhliða sameiningum sveitarfélaga. Það var mikilvæg forsenda þeirrar ályktunar sem aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti sl. haust að verulegir fjármunir fylgdu frá stjórnvöldum, með sérstökum viðbótarframlögum í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, framlög sem ekki yrðu tekin af þeim fjármunum sem ætlaðir eru til að jafna stöðu þeirra til að standa undir lögbundinni þjónustu. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í þessa ályktun:

„Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið 6. september 2019 samþykkir að mæla með því að Alþingi samþykki fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Í tillögunni er gert ráð fyrir veglegum fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga og því er mikilvægt að ríkissjóður veiti sérstök fjárframlög til sjóðsins til að fjármagna þann stuðning.“

Forsenda samþykktarinnar var þessi tillaga.

Þá vil ég víkja aftur að umsögn sambandsins um þá sömu tillögu sem hér er til umræðu. Þar er hnykkt á þessum atriðum og bent á að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti hafi lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda reglur um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningum sveitarfélaga en síðan eru vaxandi áhyggjur af því að ekki verði staðið við þetta atriði varðandi þessi sérstöku aukaframlög til sjóðsins vegna sameininganna, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga er gert ráð fyrir að jöfnunarsjóði sé heimilt að halda eftir 1 milljarði kr. árlega í 15 ár til að mæta kostnaði vegna framlaga til sameiningar sveitarfélaga. Að óbreyttu munu þessi framlög lækka það sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar til útgjaldajöfnunarframlags og framlags til jöfnunar tekna sveitarfélaga af fasteignaskatti næstu 15 árin. Eins og rakið var í upphafi lagði aukalandsþing sambandsins mikla áherslu á að ríkissjóður veiti sérstök fjárframlög til jöfnunarsjóðs til að fjármagna stuðning við sameiningu sveitarfélaga. Ekki er boðlegt að gert sé ráð fyrir að sveitarfélögin beri ein þann kostnað heldur verður ríkið að koma myndarlega að málinu.“

Hvar erum við þá stödd með forsendur þessa máls? Það virðist sem sagt hætt við því að heildaráhrif frumvarpsins verði þau að árleg framlög úr jöfnunarsjóði, önnur en sameiningarframlög, kunni að lækka um 973 milljónir næstu sex árin og síðan um 700 milljónir næstu tíu ár þar á eftir, samtals um nærri 12 milljarða á næstu 15 árum. Að meginhluta kemur þessi lækkun annarra framlaga til vegna stóraukinna sameiningarframlaga. Er það staðan sem við vildum? Það er óásættanlegt ef einstök og sérstök framlög til að greiða fyrir frekari sameiningum sveitarfélaga verða tekin af þeim fjármunum sem eiga að renna til þess að jafna aðstöðumun sveitarfélaga til að standa undir lögbundinni þjónustu. Það er ekki hægt að styðja að útgjaldajöfnunarframlög verði skert vegna þessa. Jöfnunarsjóðnum er ætlað að jafna þennan aðstöðumun. Tekjulítil sveitarfélög, víðlend og/eða fjölkjarnasveitarfélög, sum ekkert sérstaklega lítil eða fámenn, hafa nýtt þessi framlög til að halda uppi góðu skólastarfi og margvíslegri þjónustu sem er grundvöllur undir viðunandi búsetuskilyrðum. Íbúar þessara sveitarfélaga eiga ekki að gjalda þess í lífskjörum og þjónustu að stutt sé við bakið á öðrum við sameiningar.

Alþingi þarf að tryggja að þeir fjármunir sem gefin hafa verið fyrirheit um að fylgi boðuðum sameiningum og sameiningarátaki komi með sérstökum framlögum. Að öðrum kosti eru forsendur fyrir samþykkt landsþings sveitarfélaga frá því í haust brostnar að mínu mati um stuðning við þingsályktunartillöguna.

Fregnir af því að Reykjavíkurborg hafi gert 6 milljarða kröfu á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem höfuðborgin telur sig hafa verið hlunnfarna um bera vitni ótrúlegum yfirgangi og það vegna framlaga sjóðsins, eins og meginhlutverk hans er, til tekjulágra sveitarfélaga, fjölkjarna og dreifbýlla, þar sem bæði er erfiðara og dýrara að halda uppi lögbundinni þjónustu. Ekki fer mikið fyrir sambærilegri ábyrgð hjá höfuðborginni okkar, langstærsta og öflugasta sveitarfélaginu, þar sem öll okkar stjórnsýsla er, tekjur af fasteignagjöldum ríkisins, skatttekjur o.fl. Ef þetta gengur eftir er jöfnunarsjóðurinn í algjöru uppnámi og óvissa um að hann geti rækt hlutverk sitt. Samstarf sveitarfélaga verður líka í uppnámi og að mínu mati jafnframt sú tillaga sem hér er til umræðu. Hún hlýtur líka að vera í uppnámi ef þetta gengur eftir.

Í ljósi þessarar stöðu og efasemda minna um réttmæti lögþvingaðra sameininga sveitarfélaga get ég ekki stutt tillöguna að óbreyttu.