150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugavert mál sem við glímum við hérna og mig langar til að byrja á að velta fyrir mér áhugaverðum vinkli um stjórnarskrána og þessa lögþvingun eins og umsagnaraðilar kalla hana þar sem Alþingi biður ráðherra í rauninni um að leggja fram frumvarp sem kemur til með að brjóta stjórnarskrá. Ég ætla að reyna að útskýra aðeins af hverju. Við erum annars vegar með grein eftir Sigurð Óla Kolbeinsson og Jón Jónsson þar sem þeir fjalla um stjórnskipulega stöðu sveitarfélaga og lagalega umgjörð þeirra og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum segir: „Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.“ Í þessu ákvæði felst að tilvist sveitarfélaga er tryggð með stjórnskipunarlögum og verða þau því ekki afnumin með almennum lögum.“ — Það er ekki flóknara en það.

Hins vegar erum við með Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga sem Ísland hefur undirritað þar sem segir í 2. gr. I. hluta, með leyfi forseta:

„Stjórnskipunarlegur og lagalegur grundvöllur sjálfstjórnar sveitarfélaga

Meginreglan um sjálfstjórn sveitarfélaga skal viðurkennd í landslögum og í stjórnarskránni ef unnt er.“

Það sem mikilvægara er er að í 5. gr. segir, með leyfi forseta:

„Vernd staðarmarka sveitarfélaga

Ekki skal gera breytingar á staðarmörkum sveitarfélaga án þess að leita fyrst álits viðkomandi sveitarfélaga svo sem með almennri atkvæðagreiðslu þar sem lög leyfa.“

Það sem liggur fyrir í þingsályktunartillögunni er að setja fjöldatakmörkun á sveitarfélög og einhvern veginn útfæra það síðan í frumvarpi til laga. Hvað gerist þegar það er komið inn í frumvarp og allt er komið til alls og sveitarfélagið segir: Nei, ég ætla ekkert að sameinast neinum? Það er ekki komin nein sátt um það, því var hafnað í atkvæðagreiðslu — hvað þá? Hvað er stjórnarskrárlega hægt að gera til að segja við sveitarfélag: Jú, víst, þú ert sameinað, þú ert núna sameinað einhverju öðru?

Það er ekki hægt að þvinga sveitarfélag til að sameinast öðru með almennum lögum þannig að það er dálítið holur hljómur í þessari þingsályktunartillögu að ætlast til þess að sveitarfélög sameinist. Þau geta það bara með sínum eigin sjálfsákvörðunarrétti. Það er vissulega ágætt að hvetja þau til þess en það er ekki hægt að þvinga þau.

Ýmislegt annað er áhugavert að skoða í tengslum við þetta. Mikið hefur verið rætt um skipulagsvald, t.d. varðandi flugvöllinn í Reykjavík. Ýmsir hafa ætlast til þess að Reykjavík hagi skipulagsvaldi sínu eftir höfði annarra sveitarfélaga. Það hefur ítrekað verið viðurkennt að enginn annar en Reykjavíkurborg fari með skipulagsvaldið í Reykjavík. Það þýðir á sama hátt að ekki er hægt að hliðra til sveitarfélagamörkum eða skipulagsvaldi annarra sveitarfélaga á neinn hátt nema með samþykki þeirra. Þetta býr til áhugaverða vinkla gagnvart því ferli sem er verið að leggja upp með hérna miðað við stjórnarskrá og miðað við óskorað skipulagsvald sveitarfélaga. Ég vakti athygli á þessu í nefndarvinnunni, bað um greiningu á því hvort þetta gæti staðist stjórnarskrá. Ekki var mikið hlustað á það þannig að ég vek athygli á því hérna, bara svo ég endurtaki á sem einfaldastan hátt: Hérna er Alþingi að biðja ráðherra um að leggja fram frumvarp sem brýtur stjórnarskrá.

Ég tel það ekki mjög vel með farið af hálfu Alþingis ef við eigum að hafa stjórnarskrána í heiðri.