150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísa aftur í það sem ég sagði áðan. Í þessari grein um stjórnskipulega stöðu sveitarfélaga og lagalega umgjörð þeirra segir, með leyfi forseta:

„Í þessu ákvæði felst að tilvist sveitarfélaga er tryggð með stjórnarskipunarlögum og verða þau því ekki afnumin með almennum lögum.“

Þetta þýðir einfaldlega það að Alþingi getur ekki sagt að sveitarfélag X hætti að vera til og sameinist sveitarfélagi Y. Það er bara ekki vald sem við höfum hér á þingi til að gera. Ef við setjum fjöldamörk við sveitarfélög þá eru þau samt bundin öllum þeim takmörkunum sem tilvist sveitarfélagsins setur í rauninni samkvæmt þeim rétti. Ef sveitarfélagið segir: Nei, ég ætla ekki að sameinast þessum, ekki þessum og samningar nást ekki og kosningar íbúa í sveitarfélaginu enda á nei, þá er ekkert sem við getum gert við því. Ekki neitt. Við getum ekki sagt: Þið voruð ósammála því að sameinast. Það var ykkar lýðræðislegi réttur að kjósa um það. Niðurstaðan var nei. Þar af leiðandi ætlum við að sameina ykkur með einhvers konar valdi. Við getum það bara ekki.