150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel þetta bara alls ekki vera rétta túlkun á þessu ákvæði. Það varðar í rauninni stofnun sveitarfélaganna. Þegar þau eru komin á legg á annað borð er ekki hægt að rugla því fram og til baka hvaða sveitarfélag er hvar. Svo ég vitni aftur í Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga sem við höfum skrifað undir, sem á einmitt að tryggja réttindi sveitarfélaganna sem slíkra, er talað um vernd staðarmarka sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Ekki skal gera breytingar á staðarmörkum sveitarfélaga án þess að leita fyrst álits viðkomandi sveitarfélaga svo sem með almennri atkvæðagreiðslu þar sem lög leyfa.“

Það er rosalega skýrt að ef við ætlum að breyta staðarmörkum sveitarfélaga með valdi frá Alþingi erum við að brjóta þennan sáttmála, þessa grein sáttmálans, mjög skýrt og augljóst miðað við orðanna hljóðan þar. Hitt aftur á móti varðar það, ef það er ekki sveitarstjórnarstig eða eitthvað því um líkt, það þarf að stofna það upp á nýtt, að þá hægt er að stokka það upp eins og maður vill. En þegar það er komið á eru réttindi og tilvist hvers sveitarfélags skýr og sjálfstjórnarvald þess einstakt og óhagganlegt.