150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[18:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og henni fylgir aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Það er óhætt að segja að það sé eitt atriði sem hefur fengið hvað mesta umfjöllun í þessari umræðu og líka þegar málið var lagt fyrir í fyrri umr. Það varðar það sem sum okkar kalla lögþvingun og snýr að lágmarksíbúafjölda. Ég hef lýst efasemdum í gegnum tíðina um þessi lögþvingunarúrræði. Ég hef svo sem ekkert horfið frá þeirri skoðun en mér finnst þingsályktunartillagan og innihald hennar hafa fengið frekar litla umræðu af því að það er ótrúlega margt gott hér að finna og sannarlega drepið á ýmislegt í nefndaráliti meiri hlutans og farið svolítið, eðli máls samkvæmt, yfir lögþvingunina. Mér finnst tvö stærstu ágreiningsmálin varða íbúalágmarkið og það að gera þetta í tvennu lagi. Ég tek undir það sem hefur verið nefnt, að það sé kannski ekki skynsamlegt að fara í sameiningarferli og svo að fjórum árum liðnum þurfa að taka aðra sameiningu ef ekki er kostur á að taka stærri sameiningu fyrsta kastið. Það er mikið álag og mikið rask. Ég veit það hafandi gengið í gegnum það í sveitarfélagi mínu og fylgst með stórum sameiningum eins og fyrir austan og í Borgarfirði og víðar. Ég man að þegar við vorum að fara í þetta sameiningarferli í Fjallabyggð voru skilaboðin að austan: Ekki framkvæma það sem þið þurfið að gera þegar þið takið þessa ákvörðun, þ.e. sem varðaði innviðina, í mörgum skömmtum. Ákveðið bara hvernig þið ætlið að hafa þetta og gerið það. Við gerðum það auðvitað ekki, eins og svo oft vill verða. Sumt var ákveðið að láta bíða og annað ekki.

Það hefur komið fram í dag að slíkar sameiningar hafi tekist misjafnlega. Eins og gengur og gerist lærum við oftast af öðrum en þó ekki alltaf. Það sem vekur hins vegar vonir, og ég hefði viljað sjá að við héldum þeim farvegi þrátt fyrir að ég skilji sjónarmiðin sem lúta að því að sveitarfélög þurfi að vera stærri eining til að taka að sér einhver tiltekin stjórnsýsluverkefni frá ríkinu, eru verkefnin sem er nýbúið að samþykkja á Austurlandi, sem ná yfir gríðarlegt landflæmi frá Djúpavogi niður á Borgarfjörð eystri og Seyðisfjörð og héraðið þar á milli. Þetta er gert eftir töluvert mikinn og góðan undirbúning af því að sveitarstjórnirnar og íbúarnir á hverjum stað ákváðu að gera það, upplýsingagjöf var mikil og góð og annað slíkt. Svo er það módelið sem er verið að setja upp þar, sem ég held að sé afar mikilvægt til þess einmitt að koma í veg fyrir það sem hvað mest hefur heyrst um í þeim sameiningum sem hafa átt sér stað undanfarin ár eða áratugi og eru enn í fréttum í dag, þetta með að jaðarbyggðir verði út undan. Íbúum þeirra finnst fyrirkomulagið sem verið hefur við lýði ekki endilega virka sem skyldi. Ég vona að þetta sé eitthvað sem verði hægt að taka til fyrirmyndar þegar verið er að sameina, jafnvel þótt það nái ekki yfir jafn dreift landsvæði og hér er um ræða. Síðan er það auðvitað Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit sem ákváðu líka að fara í þetta á eigin forsendum og horfa á nýsköpun og er mikil framsýni í gangi þar, finnst mér, til þessa að gera sameininguna sem allra besta fyrir íbúana og horfa út fyrir hinn hefðbundna ramma þegar kemur að því að sameina sveitarfélög.

Ég setti fyrirvara við þetta ákvæði og vona sannarlega að þegar ráðherra fer að semja frumvarpið sem á að fylgja í kjölfarið verði hlustað á það. Þrátt fyrir að meiri hluti nefndarinnar hafi ekki tekið afstöðu til þess þá reifar hann þær áhyggjur hér. Ég nefni sérstaklega það að fara ekki í þetta með íbúafjöldann í tveimur skömmtum og jafnvel þá huga að því og taka svolítið út hvaða landfræðilegu svæði eru undir. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi einmitt svæðið fyrir vestan sem yrði landfræðilega að vera gríðarlega stórt og stjórnsýslan þá kannski fjarri stórum hluta íbúanna í dreifðustu byggðarlögunum. Það þarf að velta því upp hvort viðmiðið þurfi endilega að vera 1.000 íbúar af því það hefur ekki komið beinn rökstuðningur fyrir því hvers vegna miðað er við þá tölu, það er bara einhver niðurstaða. Það þarf að taka þetta út og horfa til þess hvaða sveitarfélög það væru sem gætu óskað eftir undanþágum frá 1.000 manna markinu, væru kannski 600 eða 700 manna og landfræðilega væri enginn akkur í því beinlínis að sameinast stærra svæði. Það væri áhugavert að sjá slíkt í ljósi þess hve þetta mál reynist snúið. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að á þessum aukafundi Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem tillagan var samþykkt og studd af hálfu sambandsins voru líka lítil sveitarfélög sem voru flest hver ekki sammála þeirri nálgun og fannst yfir sig valtað. Við þurfum að koma til móts við þau með einhverjum hætti. Við þurfum ekkert að falla frá því sem hér er lagt til en við þurfum alla vega að sveigja þetta til þannig að fólk geti sæmilega við unað og m.a. taka það út og skoða.

Af því að vitnað var í greinargerðina og nefndarálitið um félagslegar aðstæður sveitarfélaga og landfræðilegar þá finnst mér vanta einhverja nálgun á það hérna. Hvað getum við séð í því samhengi?

Mér finnst margt mjög gott í þessari þingsályktunartillögu. Ég skil að þetta atriði hafi fengið langmesta umræðu, vegna þess að það er svo margt undir. Maður áttar sig á því að fólk hefur áhyggjur og íbúar jaðarbyggða hafa alltaf áhyggjur. Það eru auðvitað dæmi þess, eins og við vitum, að þær byggðir hafi farið halloka innan sveitarfélaga, þar sem allt hefur færst í miðjuna, þangað sem massinn er. Þess vegna er ágætt að þetta liggi að einhverju leyti fyrir.

Ég ætla aðeins að drepa á það sem mér finnst gott í þingsályktunartillögunni og aðgerðaáætluninni. Það er m.a. liður 1.3 um samstarf um framkvæmd áætlunarinnar og samráð um málefni sveitarfélaga. Samráðið fer alltaf fyrst og fremst fram í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga og við þekkjum að þar eiga litlu sveitarfélögin ekki fulltrúa. Það eru oftast bara stóru sveitarfélögin sem eiga fulltrúa í stjórninni og þess vegna finnst litlu sveitarfélögunum að sér vegið. En hér er t.d. gert ráð fyrir því að Alþingi verði reglulega veitt skýrsla um framkvæmd stefnunnar og álitaefni sem eru til umræðu á hverjum tíma í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það er árlegur samráðsfundur fulltrúa ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar sem ég hef setið í fjárlaganefnd í mörg ár þá veit ég að hin síðari ár hefur þetta oft verið með ágætum en þó eru gráu svæðin, eins og sambandið segir gjarnan, enn of mörg, m.a. finnst því kostnaðarmatsáhrifum af frumvörpum, tillögum og öðru slíku sem á þeim lenda ábótavant.

Áðan var reifaður fjárhagslegur stuðningur við sameiningar. Mér finnst mikilvægt að við áttum okkur á því að nefndarálitið byggir á því að við tökum þetta út fyrir sviga. Við erum ekki að afgreiða það með þessari tillögu heldur er það eitthvað sem þarf að taka fyrir í samræðum á milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga áður en lagt verður fram lagafrumvarp þess efnis, sem á að byggja á þessari tillögu. Það verður ekki lagt fyrir þingið fyrr en niðurstaða hefur fengist í fjármögnun. Ég held okkur sé alveg ljóst að allir þurfa að vera sáttir við það en um það hafa verið skiptar skoðanir. Í tillögunni var í upphafi lagt af stað með það að taka út úr jöfnunarsjóði milljarða á 15 árum en meiri hluti nefndarinnar ákvað að það væri ekki endilega leiðin sem best væri að fara og vildi sem sagt þetta samtal. Ég lít svo á að við séum að afgreiða þessa tillögu til að ráðherra geti útbúið frumvarp og fundið lausn á því hvernig við ætlum að styðja að það nái fram að ganga.

Hér hefur verið rætt aðeins um tekjustofna sveitarfélaga og mér finnst einmitt að við eigum, eins og flokksbróðir minn sagði áðan, að ræða þetta út frá tekjustofnunum, hvar við getum og hvernig aukið tekjur sveitarfélaga, fremur en að halda áfram að horfast í augu við það að sum sveitarfélög fá 30, 40, 50% af tekjum sínum úr jöfnunarsjóði. Það er ekki sjálfbært, það held ég að við getum a.m.k. sagt. Gistináttagjaldið er alveg góðra gjalda vert en það er ekki það eina. Við þurfum að horfa út fyrir rammann í því eins og fleiru.

Það var ágætlega farið yfir fjármálin og skuldaviðmiðið þannig ég ætla ekki að eyða tíma í það. Mig langar að segja varðandi landshlutasamtökin að ég tel mjög mikilvægt, eins og hér er nefnt, að skýra stöðu og hlutverk samtakanna. Þau hafa gegnt mismunandi hlutverki eftir því hvar þau eru staðsett. Ég held að það megi segja að sveitarstjórnarfólk hafni þessu þriðja stjórnsýslustigi, a.m.k. miðað við samtöl mín við það. Við erum ekki fjölmenn þjóð en til tals kom að þessi samtök gætu orðið það. Þar hefur líka verið lýðræðishalli t.d. vegna minni sveitarfélaga, þannig að ég hefði ekki heldur talið það góðan kost. Mér finnst því í ljósi þeirra breytinga sem hér eru fyrirhugaðar mikilvægt að skoða þetta. Það er okkar þingmanna að eiga samtalið við landshlutasamtök okkar og sveitarstjórnarfólk um hvernig það sjái þetta fyrir sér.

Ekkert hefur verið rætt um lið 7 um samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þar er lagt til að unnið verði að því, með leyfi forseta, „að greina kosti þess að koma á fót nefnd eða gerðardómi að norrænni fyrirmynd sem taki fyrir ágreiningsmál sem upp kunna að koma í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og ekki eru falin öðrum stjórnvöldum til úrlausnar.“ Mér finnst þetta áhugavert. Þetta er eitthvað sem við höfum ekki haft hér en höfum svo sem fyrirmyndir um annars staðar frá þar sem þetta hefur virkað ágætlega. Að sjálfsögðu hefur það ekki í för með sér að sveitarfélög eða báðir aðilar geti ekki leitað til dómstóla.

Það er tvennt í viðbót sem mig langar að nefna. Annað eru starfsaðstæður kjörinna fulltrúa, liður 8. Hafandi verið í sveitarstjórn hef ég mikið talað um að mér finnist svo mikilvægt að þessi störf í nærsamfélaginu, sem eru ótrúlega mikilvæg, séu almennilega borguð. Að þau gefi fólki tækifæri á því að geta komið vel undirbúið á fundi og þetta sé a.m.k. hálft starf í hinum minni sveitarfélögum þannig að fólk geti fjallað faglega um mál og hafi tíma til að leita sér upplýsinga o.s.frv. Við þekkjum þetta, flestir eru að sinna því starfi meðfram öðru. Það er mér algerlega óskiljanlegt, af því að það er í mínu kjördæmi, að Akureyrarbær skuli ekki vera með sveitarstjórnarfulltrúana í fullu starfi eins og það er stórt samfélag og gríðarlega mikið undir. Það hefur verið kallað eftir því að Akureyrarbær verði hin borgin og mér finnst það eitthvað sem þarf að athuga. Ég veit að t.d. fulltrúi Vinstri grænna lítur á þetta sem sitt aðalstarf og sinnir því af mikilli alúð, eins og flestir og líklega allir, en það breytir því ekki að það er mikið álag að þurfa að sinna því með annarri vinnu og ég tala nú ekki um þegar svona margt er komið undir og stórt samfélag.

Við höfum rætt áður að skoða þurfi og greina, ekki bara starfsaðstæður kjörinna fulltrúa eins og hér kemur fram heldur hvers vegna það er alltaf svona mikil endurnýjun, hvers vegna konur endast styttra í því starfi en karlar. Þar finnst mér Norðurþing hafa gengið á undan með góðu fordæmi. Þeir gerðu einmitt starfið að hlutastarfi, eins og ég talaði um áðan, og funda á hefðbundnum vinnutíma þannig að það þurfi ekki að hlaupa til og fá pössun og gera og græja til þess að geta farið á síðdegisfundi eða kvöldfundi. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli ef fólk á að endast í starfinu, af því að svo þekkjum við alveg að vinnunni lýkur ekki þegar fundurinn er búinn. Þegar fulltrúar fara út í búð eru málin gjarnan tekin upp og umræðum haldið áfram, maður þekkir það í svona litlu samfélagi. Ég hef töluverðar skoðanir á þessu og finnst mjög mikilvægt að gerð verði rannsókn eða könnun á því sem allra fyrst af hverju þeir sem hafa tekið sæti síðustu 10–15 ár buðu sig ekki fram aftur.

Að lokum, virðulegi forseti, er það fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Hér er mikið og stórt verkefnismarkmiðið sem hefur verið á lista ríkisstjórnarinnar síðustu áratugina, að auka fjölbreytni í atvinnulífi um allt land og bæta forsendur fyrir jöfn tækifæri sveitarfélaga óháð stærð og staðsetningu til sjálfbærs vaxtar. Það örlar nú þegar aðeins á því en nýverið tilkynnti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann væri að flytja störf út á land. En ég hef sagt svo oft áður: Þetta eru ekki bara ráðuneytin heldur líka opinberar stofnanir. Hér kemur fram að vinna eigi greiningu sem nýtist við að móta aðgerðaáætlun um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Byggðastofnun hefur auðvitað gert margar og góðar greiningar á því og ég trúi ekki öðru en að það sé til töluvert af gögnum um það sem ættu að nýtast okkur í þeirri vinnu. Að mínu mati ætti hún ekki að þurfa að taka langan tíma. Það getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir hinar litlu og dreifðu byggðir að störfum fjölgi á landsbyggðinni og á því lýk ég máli mínu.