150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[19:00]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu fyrirspurn, að taka þetta upp, af því að það er gríðarlega mikilvæg spurning af hverju konur haldast síður í stjórnmálum almennt. Það á líka við í sveitarstjórnum. Ég er algjört einsdæmi, held ég, alla vega í kringum mig, ég er á þrettánda ári ef ég man rétt í sveitarstjórn. Það er ekki algengt að ungar konur haldist svo lengi. Vandinn er að sveitarstjórnarstarfið er ekki fullt starf á landsbyggðinni. Það er eins og fyrrverandi þingmaður, Kristján Möller, nefndi, það er bara mjög dýrt hobbí að vera sveitarstjórnarmaður. Fólk er alla jafna að vinna fullan vinnudag fyrir og svo taka sveitarstjórnarmálin við. Það er gríðarlegt álag ef fólk er með fjölskyldu og heimili. Það er því miður enn þá þannig að vinna heimilis liggur enn ansi mikið og meira á konum. Það eru bara rannsóknir sem hafa sýnt það. Það gerir þeim aðeins erfiðara um vik að sinna þessu mikilvæga hlutverki sem þær eru svo nauðsynlegar í.

Eitt gæti verið að sveitarfélögin skilgreini það sem ákveðið starfshlutfall að vera sveitarstjórnarmaður þannig að fólk fái bara greitt meira. Það gæti verið liður í því að sameina sveitarfélögin þannig að þetta verði meira umfangs og fólk geti gert meira úr starfinu. Ég myndi halda að það gæti verið stór þáttur í að bæta þessar aðstæður og fá konur til starfa og það þarf náttúrlega líka að hækka launin. Það þorir enginn sveitarstjórnarmaður að segja þetta almennilega við íbúana en launin eru allt of lág. Maður þarf að hafa, sem flestir hafa, gríðarlegan áhuga og eldmóð til að vera í þessu mjög lengi. En það eru ekki allir sem hafa kost á því. Ef fólk er að vinna vaktavinnu, sem konur eru mikið í, er mjög erfitt að fá sig lausa af spítölum til að hlaupa á einn bæjarstjórnarfund, það getur reynst erfitt. Þar liggur held ég líka hluti af vandanum.