150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[19:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að ég myndi taka undir það að eflaust er æskilegt að hafa einhverja lágmarksstærð. Eflaust er einhver lágmarksstærð þannig að ef sveitarfélag er minna en það þá valdi það ýmiss konar óhagræði. En fyrir mér er algjört grundvallaratriði að það sé samt sem áður sjálfsákvörðunarréttur þess sveitarfélags sem stjórni því hvernig við því er brugðist. Frelsi felur í sér ákveðið óhagræði. Lýðræðið felur reyndar í sér gríðarlega mikið óhagræði, ef út í það er farið, nema kannski í mjög stóru samhengi. Það verður bara svolítið að hafa það. Nú bý ég í Reykjavík sem er mjög stórt sveitarfélög svo ekki sé meira sagt og mín persónulega afstaða sem borgara er að ég vil búa í sem stærstu sveitarfélagi. Ég vil búa þar sem er sem flest fólk. Ef ég byggi í afskaplega smáu sveitarfélagi þá hreinlega veit ég ekki hvað mér myndi finnast um það vegna þess að ég þyrfti að þekkja aðstæður þess sveitarfélags. Ég hef litla reynslu af því að búa í slíkum sveitarfélögum, reyndar aðeins á táningsaldri, og get í raun og veru ekki svarað hv. þingmanni hvernig ég líti á það í sambandi við sjálfbærni án þess að kynna mér málefni tiltekins sveitarfélags.

Hvað varðar sjálfbærni almennt get ég hins vegar svarað því að það hefur verið mjög áberandi að það er aðallega ríkisvaldinu sjálfu, nefnilega fjárveitingavaldinu, að kenna að mínu mati að sjálfbærni er ábótavant hér og þar milli sveitarfélaga vegna þess að sveitarfélögunum eru veitt verkefni og þeim er gert skylt að sinna ákveðnum verkefnum án þess að fjármagn fylgi með. Nú er brugðist við því í þessari tillögu sem mér þykir mjög gott, enda styð ég tillöguna að öllu leyti eins og ég hef kynnt mér hana, ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið hana alveg í gegn, fyrir utan að ég styð ekki 1. lið II. kafla. Grundvallaratriði fyrir mér er alltaf frelsið, sjálfsákvörðunarréttur og lýðræði. Ef það kostar eitthvert óhagræði eða hefur óheppilegar hliðarafleiðingar þá verður oft og tíðum bara að hafa það. Það eru einhver takmörk fyrir því. Ég þyrfti að hafa kynnt mér (Forseti hringir.) tiltekin sveitarfélög og stöðu þeirra innan núverandi fyrirkomulags til að geta svarað hv. þingmanni. (Forseti hringir.) En ég treysti líka þeim sveitarfélögum til þess að taka réttar ákvarðanir í þeim málum.