150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[19:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einn liður sem hefur verið nefndur hérna nokkrum sinnum og fylgir tillögunni, ef ég skil rétt, að gistináttagjald renni til sveitarfélaganna. Það er líka heppilegt að það er í samræmi við stefnu Pírata sem kveður á um nákvæmlega það. Ég er enginn sérstakur sérfræðingur í tekjustofnum sveitarfélaga, verð ég að segja, en það segir sig sjálft að þegar sveitarfélög gera samninga eða samkomulag við ríkið um að veita einhverja þjónustu þá á ríkið að standa við það og ríkið á að fjármagna það sem það hefur sagst ætla að gera og á að virða það. Ef verkefni heldur áfram, segjum verkefni sem er á tilraunastigi í ákveðinn tíma, þá verður ríkið að fjármagna það í staðinn fyrir að kenna sveitarfélögunum um þegar illa fer vegna fjárskorts. Kjörið dæmi um þetta er NPA hjá Reykjavík. Núna er Reykjavík kennt um það þegar skortur er á stuðningi frá ríkinu. Þar er karpað um hvenær tilraunaverkefninu lýkur. Þar finnst mér ríkið þurfa að standa sig betur.

Varðandi sjálfsákvörðunarrétt, sjálfbærni og lágmarksíbúafjölda og því um líkt geri ég mikinn greinarmun á því hvaða skoðun ég hef persónulega og hver eigi að taka ákvörðunina. Segjum sem svo að ég sé sammála því að 1.000 eða jafnvel 2.000 manns sé heppilegt lágmark og mín skoðun sé einlæglega sú að það fylgi því mikið óhagræði og það sé mjög erfitt ef sveitarfélög eru undir þeirri stærð. Það breytir því ekki og gerir það ekki sjálfkrafa að verkum að ég treysti sveitarfélögum eitthvað minna til að taka þessar ákvarðanir sjálf. Ég er þannig gerður að ég vil vera í stóru sveitarfélagi. Ef ég byggi í 500 manna sveitarfélagi myndi ég sennilega vilja sameinast öðru vegna þess að mér finnst fólk gott, mér finnst meira af fólki betra, persónulega, þannig er ég gerður. En ég myndi umfram allt alveg treysta sveitarfélögum til að taka þá ákvörðun sjálf. Þetta er sambærilegt því að oft þegar við tölum um landsbyggðina er ekki gerður greinarmunur á því hver sé rétta ákvörðunin annars vegar og hins vegar hvort landsbyggðin eða sveitarfélögin geti tekið þessa ákvörðun sjálf. Þetta eru ólíkar spurningar. (Forseti hringir.) Ég segi: Fólk getur almennt tekið ákvörðun fyrir sjálft sig. Sveitarfélög geta almennt tekið ákvörðun fyrir sjálf sig.