150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[19:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að teygja lopann mikið í þessu máli. Hér hafa farið fram töluvert miklar og prýðilegar umræður um þessa þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033. Ég ætla aðeins að árétta það sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar hv. þingmanna Karls Gauta Hjaltasonar og Bergþórs Ólasonar. Ég tek að sjálfsögðu heils hugar undir það sem þar kemur fram. Eins kom fram í ræðu síðasta þingmanns, hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, að minni hlutinn tekur undir þessa þingsályktunartillögu að öllu leyti nema um hvernig sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er virtur. Mig langar að vitna í tvær setningar úr álitinu, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn bendir á að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er bundinn í stjórnarskrá, samanber 78. gr. hennar þar sem segir að sveitarfélög skuli sjálf ráða sínum málum eftir því sem lög ákveða. Minni hlutinn telur hins vegar að ríkið geti komið að sameiningum sveitarfélaga með því að í samráði við þau séu settir fram hvatar til að liðka fyrir slíkum sameiningum.“

Þetta er alveg kristaltært í mínum huga. Ég hef sjálfur setið í sveitarstjórn, tekið þátt í umræðum um sameiningu sveitarfélaga og er hlynntur því að sveitarfélög geti sameinast undir því merki að auka við sjálfbæran rekstur sveitarfélaganna. Það gengur misjafnlega en samt kemur glöggt fram í þingsályktunartillögunni hve mikið hefur breyst síðan 1992 þegar sveitarfélög voru 197 talsins. Í kringum 2000 voru þau 124 og svo 101 árið 2004 og hefur síðan fækkað niður í 72 sveitarfélög. Allt er þetta gert með því fororði að sveitarfélög taki sjálf ákvörðun um að sameinast eftir mislanga vinnu. Það er það sem við í mínum flokki og fleiri vilja halda til haga að sé virt algjörlega. Ég veit að við, allir þingmenn Miðflokksins, stöndum heils hugar að baki því áliti að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga sé virtur í þessari vinnu.

Það er ekki alltaf hægt að fullyrða að sveitarfélög séu endilega betur rekin þó að það séu fleiri manns í sveitarfélaginu en færri. Auðvitað er það líklegra. Við getum tekið dæmi af einum hrepp í mínu kjördæmi sem heitir Árneshreppur á Ströndum. Hann er mjög fámennur en landstór og ég veit að fólk í þeim hrepp hefur áhyggjur af því að ef það yrði þvingað til að sameinast einhverjum öðrum sveitarfélögum yrði lengra en ella í þá þjónustu sem nú er þó í sveitarfélaginu. Þau telja litlar líkur á að það myndi bæta þjónustu í þeirra sveit þannig að það myndi ekki henta þeim að sameinast undir þessum merkjum. Þau verða að finna hjá sér einhvern hvata til þess og þess vegna kemur m.a. fram í nefndaráliti minni hlutans að í samráði við þau séu settir fram hvatar til að liðka fyrir slíkum sameiningum.

Það kom líka fram á fundum sem ég fór á í kjördæmaviku sl. haust um mitt kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, að sveitarfélög sem eru þetta fámenn töluðu um að aukaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var 6. september hefði verið það fámennt, að ekki hefðu verið fulltrúar frá það mörgum sveitarfélögum, að þeim hefði ekki fundist réttlætanlegt að þessi atkvæðagreiðsla skyldi tekin gild. Þau voru ósátt við það og er náttúrlega miður ef slíkt er ekki gert á réttan hátt.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna öllu meira, ég árétta bara að skoðun okkar í Miðflokknum er sú að þessi þingsályktunartillaga sé ágætistillaga að því tilskildu að 1. liður í II. kafla falli brott þar sem það boðvald er sett inn að sveitarfélög skuli vera stærri. Ég ætla að lesa þann texta í þingsályktunartillögunni sem við viljum láta falla brott, með leyfi forseta:

„Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga.

Verkefnismarkmið: Að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni.

Lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026.“

Þetta viljum við láta fella út og þá yrðum við sennilega nokkuð sáttir og alveg örugglega við þessa breytingartillögu. Af því sögðu ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni.