150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

15. mál
[19:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um stofnun embættis tæknistjóra ríkisins. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð H. Helgason og Einar Birki Einarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Njörð Sigurðsson frá Þjóðskjalasafni Íslands. Nefndinni barst umsögn um málið frá Þjóðskjalasafni Íslands.

Með tillögunni er lagt til að stofnað verði embætti tæknistjóra ríkisins sem hafi yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins.

Við meðferð málsins var lögð áhersla á mikilvægi þess að samræma tæknikerfi ríkisins, auka sjálfsafgreiðslu í rafrænni þjónustu ríkisins og samnýta tæknilega innviði þar sem það ætti við. Þá kom einnig fram að huga þyrfti að varðveislu rafrænna gagna strax við hönnun rafrænna gagnakerfa og að samræma þyrfti uppbyggingu rafrænna gagnakerfa ríkisins. Enn fremur þyrfti að tryggja að varðveisla þessara gagna yrði í samræmi við lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014.

Meiri hlutinn bendir á að í upphafi árs 2018 var stofnaður verkefnishópur innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem gengur undir heitinu „Verkefnastofa um stafrænt Ísland“. Megináherslur verkefnastofunnar eru að auka og bæta stafræna opinbera þjónustu á Ísland.is, að byggja upp og styrkja grunninnviði upplýsingatækni og að auka samrekstur stofnana á sviði upplýsingatækni. Að auki samþykkti ríkisstjórnin fyrr á þessu ári aðgerðaáætlun um eflingu stafrænnar þjónustu sem inniheldur m.a. tillögu um að gagnasöfn verði efld og opnuð almenningi og vísindasamfélaginu. Þar kemur einnig fram að þörf sé á breytingum á lagaumgjörð til að styðja við hagnýtingu og útbreiðslu á stafrænni opinberri þjónustu.

Meiri hlutinn telur ljóst að mikil uppsöfnuð þörf sé á tæknilegri vinnu við rafræna þjónustu hins opinbera og að efling stafrænnar þjónustu muni skila aukinni hagræðingu í ríkisfjármálum. Að mati meiri hlutans falla markmið tillögunnar vel að framangreindri vinnu sem hafin er hjá stjórnvöldum en nauðsynlegt er að sú vinna verði efld enn frekar. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að tæknilegir innviðir Stjórnarráðsins fái umgjörð í samræmi við mikilvægi sitt og telur að sérstakt embætti eða stofnun geti verið leið að því marki. Þó er það mat meiri hlutans að rétt sé að eftirláta ráðherra að meta hvort tilefni verði til að stofna sérstakt embætti sem hafi yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins og hvort vinnan kalli á lagabreytingar. Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingu á tillögugrein og fyrirsögn að þessu leyti. Að lokum áréttar meiri hlutinn að í slíkri vinnu verði tryggt að samræming rafrænna gagnakerfa ríkisins sem og varðveisla rafrænna gagna verði í samræmi við lög um opinber skjalasöfn.

Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með breytingu sem ég held að borgi sig að lesa upp af því að þetta breytir í rauninni allri tillögunni.

Tillögugreinin orðast svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stórefla vinnu er varðar tæknilega innviði Stjórnarráðsins, samþættingu vefkerfa og forritunarviðmóta og stöðlun þróunarferla og gæðastýringar við hugbúnaðargerð, utanumhald um opinber gögn sem og varðveislu og afhendingu rafrænna gagna til Þjóðskjalasafns Íslands, upplýsingaöryggismál ríkisins og annað sem snýr að því að tryggja gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður þeirrar vinnu og leggi jafnframt til nauðsynlegar lagabreytingar, ef við á, á 151. löggjafarþingi.“

Svo breytist fyrirsögn tillögunnar þannig að hún verði: Tillaga til þingsályktunar um tæknilega innviði Stjórnarráðsins og rafræna þjónustu hins opinbera.

Ólafur Þór Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undirritar álitið samkvæmt heimild í starfsreglum fastanefnda Alþingis. Undir álitið rita Óli Björn Kárason formaður, Smári McCarthy framsögumaður, Þorsteinn Víglundsson, Bryndís Haraldsdóttir og Ólafur Þór Gunnarsson.

Ég vil aðeins bæta við frá sjálfum mér að það varð mjög ljóst í meðferð nefndarinnar á þessu máli hversu heimilislaus þessi málaflokkur er, bæði innan þingsins og í stjórnkerfinu. Það að nefnd sem fer yfirleitt með efnahagsmál, viðskiptamál, bankaregluverk og þess háttar skuli vera að fást við gagnagrunna og rafræna stjórnsýslu er svolítið skrýtið. Þetta er vissulega skásti staðurinn fyrir þessa vinnu en engu að síður er þetta til marks um að við höfum einhvern veginn misst sjónar af því hvert markmiðið var þegar farið var í að byggja upp gagnagrunna, vefi og rafræna stjórnsýslu í upphafi. Það að ekki hafi verið augljóst hvern ætti að tala við í stjórnkerfinu var líka svolítið áberandi. Auðvitað er komin verkefnisstjórn um stafrænt Ísland sem vinnur mjög góða vinnu og margt mjög flott kemur frá henni en engu að síður er þetta í rauninni bara lítill hópur sem starfar innan fjármálaráðuneytisins og hefur í dag, eins og kemur fram í nefndarálitinu, ekki þær lagaheimildir og þá burði sem þarf til að ná að samræma vinnu allra þeirra ríkisstofnana sem sitja á ótrúlegu magni af gögnum. Við heyrðum að jafnvel væru rúmlega 1.500 gagnagrunnar reknir af mismunandi ríkisstofnunum sem er í rauninni ekkert skýrt eftirlit með að séu afhentir Þjóðskjalasafninu, að þeir uppfylli nýjustu öryggiskröfur o.s.frv.

Ég fagna því að nefndin hafi tekið svona vel í þetta mál og að fólk hafi skilið mikilvægi þess. Sú tíð er liðin að við á Íslandi leiðum einhvern veginn þessa rafrænu stjórnsýslu. Við höfum dregist verulega aftur úr. Ég held að snemma á þessari öld hafi það gerst að við héldum að við værum í svo góðri stöðu að við hættum að leggja áherslu á þetta. Nú er komið að skuldadögum á vissan hátt og ég vona að þetta verði samþykkt sem fyrst og að vinnan fari af stað sem allra fyrst við að útbúa almennilegan lagalegan grundvöll fyrir þá vinnu sem þarf að vinna.

Svo má auðvitað minnast á að þetta er ekki bara til þess að fleiri tölvunarfræðingar fái vinnu í Stjórnarráðinu. Ég veit ekki einu sinni hvort það yrði æskilegt heldur er þetta til að bæta skilvirkni hjá hinu opinbera, minnka kostnað og auka bæði öryggi og þjónustugæði borgaranna. Það er markmið sem við getum náð ef við tökum almennilega á þessum málaflokki.