150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur í dag að afgreiða þingsályktunartillögu hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga næstu 13 árin. Ég geri ekki lítið úr því að svona vinna skilar því að menn hugsa málin betur, rannsaka og skilgreina. Allt er þetta gert í þeirri viðleitni að eitt hljóti yfir alla að ganga. Það sem gert er hér verði líka að gera þar með sama hætti og sömu áherslum. Þrátt fyrir að eitt af meginmarkmiðum áætlunarinnar sé að stuðla að og varðveita sjálfstæði sveitarfélaganna er alls staðar verið að setja skorður og skilyrði í raun. Skilyrði eru sett um íbúafjölda, skuldir, lýðræðislega aðkomu íbúa og margt fleira.

Öll þessi vinna minnir aðeins á textann í frægu dægurlagi þar sem talað var um „litla kassa á lækjarbakka og alla eins“. Vandinn er að sveitarfélögin eru svo óskaplega ólík að stærð og gerð að nánast engin leið er að bera þau saman og breytir þá litlu hvort borið er saman sveitarfélag með 150.000 íbúa á móti sveitarfélagi með 1.000 íbúum eða 300. Þessi sveitarfélög geta aldrei passað í sömu treyjuna hvernig sem reynt er. Því finnst mér það umhugsunarvert hvort hugsa ætti dæmið algjörlega upp á nýtt og setja færri reglur og treysta fólkinu á hverjum stað fyrir eigin málum. Það mætti hugsa sér að semja um mismunandi verkefnatilflutning til mismunandi sveitarfélaga. Þannig semji hvert sveitarfélag við ríkið eða önnur sveitarfélög eftir aðstæðum um hvaða verkefni það getur tekið að sér. Eitt getur tekið að sér viðhald vega. Annað vill reka skóla eða semur við aðra um það o.s.frv. Mismunandi leiðir og mismunandi aðferðir geta leitt til betri lausna. Við þurfum að lifa við þann landfræðilega veruleika sem er í landinu og við ættum að einbeita okkur að því.