150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Jónína Björk Óskarsdóttir (Flf):

Herra forseti. Nýlegar rannsóknir sýna að næringarástand aldraðra er miklum mun verra en heilbrigðisyfirvöld gerðu sér grein fyrir. Eitt af alvarlegri vandamálum aldraðra er þyngdartap og vöðvarýrnun eða sarcopenia á latínu, eins og Ólafur veit eflaust hvað er. Áður var vöðvarýrnun talin náttúrulegur fylgifiskur öldrunar en nú vitum við að hægt er að verjast henni með miklu betri hætti en gert hefur verið með betri næringu og hreyfingu. Mikilvægt er að heilbrigðisyfirvöld og þeir sem vinna með öldruðum vinni sameiginlega að því að bæta ástandið. Þar á ég við í samvinnu við heilsugæslustöðvar og að á heilsugæslustöðvunum gæti verið tómstundafulltrúi sem gæti séð um þennan þátt.

Annað er líka að í heimahjúkrun, þar sem unnið er alveg frábært starf og hef ég kynnst því svolítið, vantar orðið þessa samþættingu heimahjúkrunar og heilsugæslu, þennan samnefnara milli sjúklings og heilbrigðisstofnunarinnar þannig að við náum til þess sem er að einangrast.

Annað sem ég get sagt ykkur í sambandi við heilsueflingu, hvað þar er verið að gera góða hluti. Ég hef séð það síðastliðin fjögur ár og vil að við tökum það hér í þinginu, virðulegi forseti, til verulegrar athugunar. Það er verkefni Janusar Guðlaugssonar sem hann er með bæði í Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Þar er ég búin að horfa upp á að fólk á áttræðis- og níræðisaldri með göngugrind hefur sleppt göngugrindunum. Þetta er svo þýðingarmikið fyrir heilbrigðisgeirann sem losnar við að fá þetta fólk inn til sín. Bætt heilsa fæst með bættri hreyfingu og næringu.