150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda kærlega fyrir afskaplega góðar umræður og þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls. Mig langar að nefna nokkra þætti er varða það hvað við erum að gera í þessum málum. Í fyrsta lagi liggur frumvarp fyrir Alþingi um Menntasjóð námsmanna sem felur í sér gjörbreytingu og mun styðja betur við bakið á námsmönnum á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Það verður líka ákveðinn möguleiki fyrir ívilnanir, sérstaklega fyrir landsbyggðina, í þessu nýja frumvarpi.

Í öðru lagi langar mig að nefna að framhaldsskólastigið hefur verið styrkt verulega fjárhagslega. Fjárhagsstuðningur við hvern nemanda hefur aldrei verið hærri þannig að við erum að auka verulega í framhaldsskólastigið. Ég vil líka nefna að við höfum ákveðið að setja á laggirnar hóp sem er að kortleggja heimavist á höfuðborgarsvæðinu og það gerum við í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við viljum beita okkur fyrir því að fleiri valkostir séu í boði.

Ég vil einnig nefna að hér var sérstök umræða um Fjölbrautaskóla Suðurlands og þar höfum við þegar hafið vinnu. Skýrslan um það hvernig við ætlum að fara í þetta er tilbúin. Ástæða þess að heimavistin lagðist niður þar var sú að á því tímabili var ekki eftirspurn eftir því að fara í heimavist. Við þurfum að styrkja frekar við heimavistina og þetta höfum við líka verið að vinna með Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ég vil upplýsa það hér, virðulegi forseti, að við erum að gera heilmikið; ný lög um lýðskóla, aukinn fjárstuðningur við lýðskóla, lesskilningur, markvissar aðgerðir. Öll börn verða að vera vel læs til að geta verið virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Að lokum erum við búin að veita heimild til að flóttamenn geti tekið lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og það gerðist á síðasta ári.