150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:29]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég legg áherslu á að við erum að fjalla um þingsályktunartillögu þar sem mörkuð er stefna um 11 atriði. Þetta er þingsályktunartillaga sem verður unnin með sveitarfélögunum og í sátt við þau. Meiri hluti sveitarfélaganna og forysta þeirra kallar eftir þessu og það hjálpar mér að fjalla um þetta mál út frá sjálfsstjórn sveitarfélaga sem ég styð algjörlega. Ég tek fram, eins og hér hefur áður komið fram, að mikil áhersla hefur verið lögð á það í því nefndaráliti sem fylgir að við löggjöfina, sem þarf til að kalla fram þá skyldusameiningu sem hér er m.a. rætt um, þarf að tryggja sveigjanleikann og vernda sjálfstæði sveitarfélaga eins mikið og hægt er.

Mig langar líka að nefna að það þarf að endurskoða skuldaviðmiðið. Af hverju á að gera kröfu um að lækka það úr 150% niður í 100% á sama tíma og við erum að hvetja til sameiningar? Ég tel það ekki hjálpa sameiningarákvörðununum.