150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði með breytingartillögunni um að fella brott liðinn um lögþvingunina. Ef þingið hefði samþykkt þessa breytingartillögu hefði ég greitt atkvæði með restinni af málinu í heild sinni. Ég mun ekki greiða atkvæði með þingsályktunartillögunni ef þessi niðurstaða stendur þrátt fyrir ræðu mína, ef breytingartillagan verður felld og lögþvinguninni haldið inni. Ég sé mér ekki fært að styðja málið í heild sinni að lokum með þessum alvarlega galla innan borðs að mínu mati. Ég verð að taka fram að að öðru leyti er tillagan í heild sinni mjög þarft og gott verk en það skiptir ekki bara máli hvaða ákvarðanir eru teknar heldur hver tekur þær. Það er svo augljóst að þegar sveitarfélag sér sér hollast að vera að lágmarki 1.000 manns og sameinast öðrum taki það sveitarfélag þá ákvörðun óþvingað. Þetta er grundvallaratriði, virðulegur forseti, og það er undirstaða afstöðunnar sem hér er tjáð. Hún varpar ekki rýrð á restina af þessari annars ágætu tillögu.