150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:40]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég hef ekki farið dult með það að það ákvæði sem við erum að greiða atkvæði um gengur gegn öllu því sem ég hef staðið fyrir. Þess vegna greiði ég atkvæði gegn því. Það er erfitt að leggjast gegn samherjum sínum í ríkisstjórn en ég verð að gera það. Ef málið gengur fram með þeim hætti sem mér sýnist augljóst mun ég heldur ekki styðja þingsályktunartillöguna í heild sinni, jafn góð og hún er. Það er líka erfitt. Ég óttast því miður að við séum að hefja vegferð sem við sjáum eftir þegar þar að kemur. Möguleikar fólks á því að fá sjálft að ráða örlögum sínum og framtíð eru meðal þeirra grundvallarstefja sem við eigum að standa vörð um. Sá réttur er í mínum huga heilagur og ég mun standa vörð um hann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)