150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að ráðherra taki alvarlega þá umræðu sem hér hefur farið fram þegar frumvarpið sem þessi þingsályktunartillaga á að byggja undir verður lagt fram. Tvennt hefur borið hæst eins og við þekkjum, þær lögþvinguðu sameiningar sem við erum hér að greiða atkvæði um og svo fjárhagslegi stuðningurinn sem ætlað er að styðja og hvetja til sameininga. Ég hef verið mótfallin því að lögþvinga sveitarfélög til sameininga og hef í sjálfu sér ekki breytt skoðun minni en veit að samfélagið kallar á sterkari sveitarfélög. Sú hugmynd að leggja til tvöfalt ferli í sameiningum er ekki skynsamleg að mínu mati og margra annarra og hvet ég ráðherrann til að skoða það ofan í kjölinn. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur vísað fjárhagsstuðningstillögunni til nánari vinnu sambandsins og ríkisins til úrlausnar og geri ég ráð fyrir að sameiginleg niðurstaða þeirra aðila liggi fyrir áður en frumvarpið verður lagt fram.

Þessi atriði skipta höfuðmáli þegar kemur að afstöðu minni til þess frumvarps sem þá var lagt fram.