150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að sitja hjá við þessar aðstæður en get eiginlega ekki annað en greitt atkvæði gegn tillögunni. Lögþvingun er að mínu mati röng. Hún er siðferðislega röng. Að mínu mati stenst hún ekki stjórnarskrá og vissulega ekki þá túlkun sem við ættum að leggja í hana jafnvel þótt okkur takist að finna einhverjar snjallar lagatæknilegar leiðir til að réttlæta hlutina eins og pólitíkusum er tamt. Síðan er líka annað sem var sagt hérna áðan, það var reyndar stuðningsmaður málsins sem eiginlega fékk mig yfir á rauða takkann með því að segja að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna væri virtur með því að meiri hluti þeirra væri til í þetta, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga. Það þykja mér ansi rýr rök, virðulegi forseti, vegna þess að sjálfsákvörðunarréttur felur í sér að maður ráði sér sjálfur, ekki það að fulltrúi manns ráði manni, alveg eins og við stjórnum ekki einkalífi fólks úti í bæ. Það eru ákveðin mörk fyrir valdi yfirvalda hverju sinni, okkar gagnvart borgurum landsins og Alþingis gagnvart sveitarfélögunum. Við eigum að virða það þannig að ég get ekki annað en greitt atkvæði gegn þessu máli, virðulegi forseti, á þessum forsendum.