150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta mál dettur ekki af himnum ofan. Það hefur verið unnið að því á vettvangi sveitarstjórnanna um margra ára skeið og í samstarfi við framkvæmdarvaldið hafa verið unnar skýrslur sem þetta mál byggist á, grænbók, hvítbók, mikið samráð við öll sveitarfélög landsins, aukalandsþing sveitarfélaga í landinu sem að miklum meiri hluta samþykkti þessa tillögu þannig að það er ekki til komið bara allt í einu. Þetta er verkefni sem mjög margir hafa haft miklar skoðanir á að sé rétta leiðin í því að efla sveitarstjórnarstigið í landinu. Umræða um að sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga sé með einhverjum hætti skertur eða að málið varði við stjórnarskrá er einfaldlega hrein og klár þvæla. Ég hvet þingmenn til að lesa sér til um það, hætta að kyrja það sjálfir nægilega oft og segja: Það hefur margoft komið fram. Það kemur fram hjá þeim einum sem halda þessu fram.

Það væri nær að hlusta (Forseti hringir.) á þá fræðimenn sem um það mál hafa fjallað, eins og til að mynda Lárus Bjarnason, Bjarna Benediktsson eldri, Trausta Fannar Valsson og Ólaf Jóhannesson sem allir hafa haldið því fram að svigrúm löggjafans sé mjög rúmt. Því má jafnvel halda fram að það að hafa ekki lágmarksíbúafjöldatölu sé brot á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga ef þau eru svo fámenn að þau geta ekki (Forseti hringir.) stjórnað á sjálfbæran hátt án þess

(Forseti (SJS): Nú verður hæstv. ráðherra að fara að ljúka máli sínu.)

að fá hjálp frá öðrum sveitarfélögum eða Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.