150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stofnun embættis tæknistjóra ríkisins.

15. mál
[16:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að taka til máls um atkvæðagreiðsluna en það skiptir kannski ekki öllu máli, ég set það undir liðinn að gera grein fyrir atkvæði. Við í þingflokki Miðflokksins ætlum að styðja við þessa tillögu með það í huga að með markmiðum hennar takist að einfalda það kerfi sem almenningur og fyrirtæki þurfa að eiga við í samskiptum við hið opinbera, að þegar upp verður staðið verði sú niðurstaða úr stóru myndinni að þetta sé eitt af mörgum skrefum sem þarf að taka til að minnka báknið, að þeim tilvikum fækki þar sem íbúar landsins sem þurfa að sækja þjónustu langt að, t.d. utan af landi, þurfi að gera sér ferð til höfuðborgarinnar til að leysa einföld mál. Forsendur þess að Miðflokkurinn styðji við þetta mál núna eru að þetta verði skref í þá átt að einfalda kerfið sem almenningur og fyrirtæki þurfa að eiga við dagsdaglega.