150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

betrun fanga.

24. mál
[17:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Líkt og dómsmálaráðherra hér á undan þakka ég fyrir þessa tillögu og afgreiðslu en ég get ekki frekar en dómsmálaráðherra áðan orða bundist vegna þess að í tillögunni segir að dómsmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra eigi að setja á fót starfshóp um mótun heildstæðrar meðferðar- og endurhæfingarstefnu í fangelsismálakerfinu. Eins og dómsmálaráðherra rakti áðan var slík vinna sett af stað á síðasta ári og niðurstöðum skilað í lok þess árs. Starfshópur sem Tolli Morthens leiddi lagði þetta einmitt til og sú skýrsla var kynnt í ríkisstjórn og svo opinberlega í lok síðasta árs. Ríkisstjórnin samþykkti að fylgja henni eftir þannig að ég sé ekki annað en að það sé hægt að senda þá skýrslu bara beint til þingsins að lokinni samþykkt þessarar þingsályktunartillögu. (Gripið fram í.) Ég fagna því að það sé samstaða um þá braut sem ríkisstjórnin vinnur eftir og hæstv. dómsmálaráðherra.