150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er einmitt þetta, þ.e. að almenningur upplifir að þeir sem fara með almannavaldið séu að beita því í þágu sérhagsmuna, m.a. í þeim tilgangi að það hjálpi til við atkvæðaveiðar til að þeir haldi völdum eða komist til valda. Fyrri parturinn af þessum vítahring er náttúrlega skilgreindur sem pólitísk spilling sem landsmenn voru ekki meðvitaðir um fyrir hrunið. Þegar hrunið verður og fólk fer að sjá á bak við tjöldin hvernig hlutirnir virka verður heiðarleiki stærsta gildið, eins og gerðist á þjóðfundinum 2009. Hvers vegna? Jú, út af því að fólk var svo vonsvikið, það hélt að samfélagið væri miklu heiðarlegra. Það gildi er náttúrlega sterkt en það verður sterkara þegar fólk fattar að það skortir. Þess vegna spyr ég með GRECO; þau skilyrði voru ekkert öll uppfyllt í forsætisnefnd. Makarnir voru ekki teknir inn í þetta, sem er bara á alþjóðlegum vettvangi ákveðinn standard, þ.e. tengdir aðilar. Við vitum það líka hér í þinginu að það var þingmaður sem færði makrílkvóta yfir á maka eða útgerðarfélag eftir að hann varð þingmaður. Við vitum því að þessi freistnivandi er til staðar og mér finnst mjög gott að forsætisráðherra setji þessa þætti inn þegar kemur að framkvæmdarvaldinu (Forseti hringir.) en ég hvet hana til dáða að tala um fyrir öðrum í hennar flokki sem hafa (Forseti hringir.) völd hvað það varðar (Forseti hringir.) hér á þinginu, að laga þetta líka hér.

(Forseti (HHG): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða hin knöppu tímamörk.)