150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

áætlun um lausn Palestínudeilunnar.

[10:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýlega hefur forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, og forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, opinberað það sem er kallað áætlun aldarinnar. Það er áætlun sem þessir tveir herramenn og þjóðarleiðtogar hafa ákveðið fyrir hönd tveggja þjóða, Ísraels og Palestínu, hvort tveggja þjóðir sem Ísland viðurkennir sem sjálfstæð ríki. Þessi áætlun er gerð í óþökk Palestínuhliðarinnar sem hefur hafnað áætluninni með mjög afdráttarlausum hætti. Áætlunin felur í sér það frekar tilætlunarsama markmið að ætla að úthluta Palestínu landsvæði sem Palestína sjálf sættir sig ekki við, þetta sjálfstæða ríki samkvæmt íslenskri utanríkisstefnu.

Ég velti því fyrir mér og langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst bregðast við þessu eða hvort hann hyggist bregðast við og þá hvernig, sér í lagi gagnvart bandamönnum okkar vestan hafs, í Bandaríkjunum. Ég velti fyrir mér hvernig Íslendingum myndi líða með það að annað ríki sem viðurkenndi sjálfstæði Íslands myndi bara þegja eða að gera ekkert í því eða finnast á einhvern hátt í lagi að annað ríki væri að útdeila landamærum okkar eða ákveða hvernig okkar landamæri ættu að vera án þess að tala við okkur og án þess að spyrja okkur einu sinni álits og jafnvel þó að við mótmæltum harðlega. Ég velti fyrir mér hvernig okkur myndi líða með það.

Það hvernig þessi áætlun virðist ætla að ganga í gegn, alfarið út frá hernaðarmætti Ísraels og Bandaríkjanna, er eitthvað sem Ísland ætti að mótmæla mjög harðlega. Palestína er þjóðríki sem við viðurkennum. Við hljótum að gera þá kröfu, sérstaklega á helstu bandamenn okkar, að þeir virði sjálfsákvörðunarrétt þeirra þjóða. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort og þá hvernig hann hyggist bregðast við þessari þróun.