150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða sem á sér hér stað í dag og er auðvitað, eins og nefnt hefur verið, samfélagsumræða þar sem við erum að skoða samfélagið okkar og hvernig það hefur ólík áhrif á kynin. Rannsóknir hafa sýnt að það hefur slæm áhrif á heilsufar kvenna og þar er margt sem kemur til. Hér hefur verið vísað í skýrslu Eurostat um það að konur á Íslandi séu meira í því að sinna öldruðum, langveikum og fötluðum. Ég hef ekki kafað ofan í þessar tölur, ég held að þetta sé alveg rétt, en eitt af því sem gæti verið öðruvísi í íslensku samfélagi er að við reynum að koma í veg fyrir það eins og við mögulega getum að fötluð börn búi á stofnunum. Það veldur auðvitað auknu álagi og því þarf að mæta með auknum stuðningi við foreldra. Það að börn búi á heimilum sínum er í sjálfu sér gott. Hérna þurfum við að kafa vel ofan í það hvað tölurnar þýða í rauninni og bregðast svo rétt við með réttum stuðningi.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur farið yfir það sem snýr að því sem hún er að gera á sínum vettvangi. En auðvitað þurfum við að ræða þetta líka út frá málefnum til að mynda félagsmálaráðherra. Ég bind vonir við það að breytingar á fæðingarorlofskerfinu taki til framtíðar á þessu, að með lengra fæðingarorlofi og hækkuðum greiðslum munum við ala upp nýja kynslóð karla sem munu taka meiri þátt. (Forseti hringir.) Við þurfum að þekkja og hafa greinargóðar upplýsingar um samfélagið okkar svo stjórnvöld geti beint fjármagni og stuðningi á rétta staði. Þannig náum við árangri.