150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[12:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Hvarf loðnunnar er mikið áhyggjuefni en það er ekki á okkar færi að stöðva loðnuna. Það sem er á okkar færi er að hafa eftirlit með sjávarauðlindinni, bæði því hvernig umhverfi hennar er að breytast og hvernig stofnar fara eða koma inn í lögsöguna, að fylgjast með því til að geta gefið góðar upplýsingar til þeirra sem sinna veiðunum og finna hana og bera sig eftir því hvernig hlutirnir gætu breyst, spá fyrir um það.

Þá er spurningin: Hvernig er staðan hvað varðar eftirlit með sjávarauðlindinni? Og svo náttúrlega eftirlit með því að það sé ekki veitt meira en sjálfbært sé, sem er náttúrlega grunnforsenda kvótakerfisins, alla vega eins og lagt var upp með það. Núna í lok síðasta árs vorum við að klára fjáraukalögin, sem eru sá hluti fjárútláta ríkisins þar sem er horft yfir árið, hugsað og athugað hvort frá síðustu fjárlögum hafi eitthvað óvænt gerst, orðið breytingar sem kalli á frekara fjármagn. Þeim sem sáu Kveiksþáttinn um eftirlit með sjávarauðlindinni ætti ekki að koma neitt á óvart að það er gríðarlegt fjársvelti þegar kemur að eftirliti með fiskveiðiauðlindinni. Þegar við vorum að klára fjáraukalögin, og kom fram frá eftirlitsaðilum í sjávarútvegi að þá vantaði fjármagn til að geta sinnt sínu starfi, fjármagn sem var ekki sett inn, vildi ég vita: Hver er staðan? Þannig að ég óskaði eftir því að atvinnuveganefnd, sem hefur að gera með þennan málaflokk, sjávarauðlindina okkar, góða og sjálfbæra nýtingu hennar, fengi að vita hjá þeim aðilum sem sinna eftirliti í sjávarútvegi hver staðan raunverulega væri. Ég óskaði eftir því að Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa og Matvælastofnun, sem öll sinna eftirlitshlutverki á sínu sviði, kæmu fyrir nefndina og upplýstu okkur, gæfu svör við spurningum sem þeim voru sendar. Við fengum þau á fund nýlega. Spurt var: Hvernig sér stofnunin framtíð starfsemi sinnar miðað við það fjármagn sem henni var úthlutað samkvæmt fjárlögum? Sér stofnunin fram á að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu? Sér stofnunin fram á að þurfa að fjölga starfsfólki? Og ef svo er, getur stofnunin fjármagnað þá fjölgun? Sér stofnunin fram að það þurfi að fjölga verkefnum? Og ef svo er, getur hún fjármagnað það? Sér stofnunin fram á að þurfa að fækka starfsfólki? Eftirlit með fiskeldi fórum við sérstaklega í, en þetta tengist loðnunni, umræðunni sem við erum í hér.

En svörin? Atvinnuveganefnd sendi spurningarnar til eftirlitsaðilanna, Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Matvælastofnunar. Svörin sem við fengum frá þeim þegar þau komu á okkar fund voru að mjög miklu leyti algjörlega í ósamræmi við þau svör sem við fengum frá ráðherra. Ég sendi nefnilega samhliða, í desember, ráðherra þessarar sömu spurningar — sem þingmaður get ég sent fyrirspurn til ráðherra með beiðni um skriflegt svar og hefur hann 15 daga til að svara. Daginn eftir að þessar eftirlitsstofnanir í sjávarútvegi komu fyrir atvinnuveganefnd og segja okkur sína sögu fengum við allt aðra sögu ráðherra. Það er ekki samræmi þarna á milli. Ráðherra segir að það fjármagn sem er nauðsynlegt fyrir þessar stofnanir sé til staðar. Þetta geta menn lesið á síðum Alþingis. Svörin hafa verið birt þar.

Sá aðili sem á að starfrækja sjálfstæða rannsókna- og ráðgjafarstofnun, Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, aðili sem heyrir undir ráðherra, starfar samkvæmt lögum. Í þeim lögum segir, með leyfi forseta:

„Markmið með lögum þessum er að efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni og stuðla í senn að sjálfbærri og arðbærri nýtingu auðlindanna.“

Þessi aðili kom fyrir nefndina og benti á það að hann hafi farið í gegnum mikla hagræðingu. Hann telur sig enn þá geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, ber sig vel miðað við kringumstæður, segist rétt halda sjó en það er ekki mikið borð fyrir báru hvað þetta varðar og þeir geta illa sinnt eftirliti með loðnunni, að fylgjast með loðnunni, hvar hún er. Þeir segja að þeir hafi verið að fá aðstoð útgerðarinnar við það en þeir vilja núna fara að fá eitthvað fyrir sinn snúð og þessu þarf ráðherra að huga að inn í framtíðina. Því að hafið og straumarnir, segja þeir, og hitinn hefur breyst. Og á akkúrat þeim tíma sem þessar miklu breytingar eiga sér stað — loðnan er að hverfa, við finnum hana ekki nema að mjög litlu leyti, makríllinn er að koma, það eru gríðarlegar breytingar — er verið að skera niður. Það er verið að krefjast gríðarlegrar hagræðingar hjá þessari sömu stofnun, Hafrannsóknastofnun, sem á að sinna þessu eftirliti. Þetta er mjög óskynsamleg forgangsröðun.

Síðan varðandi Fiskistofu sem kom líka á fund. Þeir sem fylgdust með Kveik vita hver staðan þar er, hún er ekki góð. Þeir sinna eftirliti með framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlits með fiskveiðum. Hérna í umræðunni hafa menn verið að nefna að mögulega sé verið að ofveiða. Eftirlitið með ofveiði eða brottkasti og slíku er ekki gott á Íslandi. Þessar stofnanir eru sveltar, þær ná ekki að sinna því hlutverki — meginhlutverki kvótakerfisins — að passa upp á að þetta sé sjálfbær nýting. Þær eru ekki að gera það. Þær segja okkur að það vanti fjármagn til þess að geta gert það betur. Fiskistofa nefnir og hefur ítrekað nefnt það. Það vantar t.d. myndavélar, það væri arðbær og skýr leið. Hvers vegna er ekki hægt að setja á eftirlit með brottkasti? Maður fer að spyrja sig, virkilega fer að spyrja sig: Hvers vegna er þetta trassað? (Gripið fram í: Rólegur.) Ráðherra bendir mér á að vera rólegur. Þetta er bara mikið hitamál. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir gríðarlega marga (Gripið fram í: Já.) og bendir jafnvel á að viðmið um lágmarkseftirlit hafi aldrei verið sett. Þetta er svakalega slæm staða með mikilvægustu auðlindina okkar, það er rosalega lélegt eftirlit með henni, ekki vegna skorts á vilja þeirra sem sinna þessu eftirliti sjálfir og kalla einmitt eftir því ítrekað, trekk í trekk, að það þurfi að sinna því betur.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þetta eftirlit er bara svartur blettur á stjórnsýslu gagnvart sjávarútveginum okkar. Jafnframt er verið að benda á að það séu fyrirmæli frá ráðuneytinu um að sinna ákveðnu eftirliti sem er ekki verið að sinna, sem er á kostnað þess eftirlits sem er nauðsynlegt til þess að passa upp á að það sé ekki verið að misfara með auðlindina. Og svo kemur fram hjá Matvælastofnun um eftirlit með fyrirtækjum í sjávarútvegi að þau segjast geta sinnt hlutverki sínu ágætlega. Þau telja sig geta sinnt þessu hlutverki vel. En þegar kemur að Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu er staðan svakalega slæm. Ef við viljum raunverulega fara vel með auðlindina okkar, ef við viljum raunverulega vita hver þróun hennar sé, ef við viljum raunverulega vita hvert loðnan er að fara, þá verður að gera betur.