150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

147. mál
[13:18]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Nirði Sigurðssyni fyrir æðislega fína tillögu í annað skipti. Ég var mjög ánægður með hana síðast og er feginn að hún sé komin aftur. En mig langar til að nýta mér þekkingu hv. þingmanns til að fá smáskilning á þessu fyrirbrigði. Mikilvægi þess að vernda menningarminjar er alveg kristalskýrt. Hv. þingmaður nefndi nokkur tilfelli, svo sem í Mostar þar sem er að vísu búið að endurbyggja þessa fögru brú og í Bamiyan þar sem á eftir að gera viðlíka endurreisn og síðan í tilfellum eins og þegar Donald Trump hótar eyðileggingu á minjum. Kannski mætti líka nefna að víða í Írak skemmdust minjar. Þar er orðin ákveðin tilhneiging til þess að fólk sem er í stríði af menningarlegum orsökum líti á menningarminjar sem sérstök skotmörk og líti jafnvel á Bláa skjöldinn sem tilefni til árásar. Þekkir hv. þingmaður til þess að það séu einhverjar tilteknar aðgerðir eða eitthvað sem er hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta?

Ég væri mjög hlynntur því sjálfur að Blái skjöldurinn yrði settur á viðeigandi hús á Íslandi. Þetta hefur oft verið vandamál og ég hef unnið á nokkrum stríðssvæðum þar sem það hefur beinlínis komið upp sem vandamál að minjar eru að skemmast vegna þess að fólk er að merkja þau með Bláa skildinum og vísa þar af leiðandi hryðjuverkamönnum beinlínis leiðina á verðmætin.