150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

raforkuöryggi á Suðurnesjum.

[15:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Aðeins nánar varðandi þetta. Umsögn sveitarfélagsins Voga við matsskýrslu Landsnets var á þann veg að Suðurnesjalína 2 skyldi lögð í jörðu og meðfram Reykjanesbraut. Landeigendur eru á sama máli. Landsnet mun að öllum líkindum sækja á þessu ári um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, byggt á meginvalkosti þeirra, þ.e. að hún yrði lögð sem loftlína meðfram Suðurnesjalínu 1. Óttast ráðherra ekki að sama sagan endurtaki sig og áframhaldandi tafir verði á verkinu? Á fundi verkefnaráðs Landsnets í síðustu viku kom Vegagerðin og kynnti lausnir varðandi lagningu jarðstrengs meðfram Reykjanesbrautinni. Fram kom í máli fulltrúa Vegagerðarinnar að gerlegt væri að leggja strenginn í jaðar veghelgunarsvæðisins og unnt væri samhliða þeirri aðgerð að ráðast í betri frágang öryggissvæðis meðfram veginum en nú er.

Þetta eru jákvæðar fréttir að mínum dómi og mikilvægt innlegg í að sátt náist um þetta mál. Hver er afstaða ráðherra hvað þetta varðar?